Samræmum tillögurnar tvær!

Tvær þingsályktunartillögur um aðildarviðræður og um undirbúning mögulegra aðildarviðræðna að Evrópusambandinu eru komnar fram og önnur þeirra er rædd í þinginu í dag. Tillögurnar falla í sömu átt en mér þykir tillaga Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar hafa meira kjöt á beinunum sem vegvísir um markmið og leiðir.  

Það  væri, að mínu mati, skynsamleg ráðstöfun flutningsmanna þessara tillagna að fallast á að skoða þessar tvær tillögur saman. Það myndi í fyrsta lagi spara tíma og þar með gæfist meiri tími til þess að ræða þau mál sem brenna á þjóðinni í dag og þarfnast skjótra úrlausna. Í öðru lagi gæfist þá tími til að samræma þessar tvær tillögur, búa til vegvísi að þeim leiðum sem  fara á, setja skýr markmið og skilyrði okkar þjóðar, kalla til hagsmunaðila og allt það sem fylgir jafn viðamiklu máli og við ræðum hér og nú.

Nú er tækifæri til samvinnu stjórnarsinna og stjórnarandsöðu


Mikil vonbrigði

Það var dapurt að hlusta á forsætis - og fjármálaráðherra í gær. JS og SJS sögðu þjóðinni enn og aftur það sem hún veit; efnahagsvandinn er gífurlegur, framundan eru erfið verkefni sem þarf að takast á við. Þetta veit þjóðin og hefur vitað síðan í október en nú eru maílok og enn er verið að segja sömu hlutina. Það á gera þær kröfur til ríkisstjórna að þær taki á þeim vanda sem við blasir, við getum verið misánægð með það sem gert er en nú eru flestir óánægðir vegna þess hve lítið er gert og hve litlu það hefur skilað.

Við sitjum enn uppi með að efnahagsreikingur ríkisbankanna  þriggja er óklár, gjaldeyrisójafnvægi ógnar og þetta þýðir einfaldlega að súrefni til atvinnulífsins og heimila er ekki fyrir hendi. Upplýsingar um hvað ríkisstjórnin hyggst gera í ríkisfjármálum sem og öðrum málum á næstu vikum komu ekki fram og verkefnalistinn segir okkur ekkert. Þetta vinnulag er óásættanlegt meira að segja af hálfu ríkisstjórnar sem Jóhanna Sigurðardóttir stýrir. 

JS sagði að hún stæði nú frammi fyrir erfiðustu ákvörðunum á stjórnmálaferli sínum! hún er líklega ekki eini stjórnmálamaðurinn sem það gerir um þessar mundir. En vandi JS er að vísu tvíþættur því JS hefur fram til þessa verið stjórnmálamaður útgjalda fyrir þá hópa sem hún hefur ötullega barist fyrir en er nú í forsvari ríkisstjórnar sem þarf að fara í gagngera uppstokkun ríkisfjármála sem mun hafa í för með sér sársaukafullar ákvarðanir hafi ríkisstjórnin þann kjark sem nauðsynlegur er íslensku samfélagi til þess að við getum hafið uppbyggingu á nýjan leik.

SJS er sá stjórnmálamaður, að minnsta kosti í sínu " fyrra " stjórnmálalífi sem hvað harðast hefur gagnrýnt ríkisstjórnir og einstaka ráðherra fyrir aðgerðarleysi en virðist sjálfur ekki ráða við þann vanda sem við blasir en talar um hann oft og iðulega. Hann hefur síðan 1. febrúar borið ábyrgð á fjármálum íslenska ríkisins en hvernig hefur fjárlögum ársins 2009 verið fylgt eftir? Upplýsingar liggja ekki á lausu þrátt fyrir ítrekuð loforð um slíkt. Nú eru liðnir tæpir fjóri mánuðir þar sem VG og Sf hafa setið saman í ríkisstjórn og ég spyr hefur verið unnið samkvæmt þeim hugmyndum sem lágu fyrir um hagræðingu, samþættingu og niðurskurð skv. fjárlögum ársins 2009 eða bíður það seinni hluta ársins og kemur þá að meiri þunga en ella hefði þurft? 

Í pólitík greinir menn á um leiðir en kjarkleysi og ákvarðanafælni er óviðunandi.


Skýrsla forsætisráðherra vekur hún von eða vonbrigði!

Forsætisráðherra mun á morgun gefa munnlega skýrslu um efnahagsmál. Ég vona svo sannarlega að JS tali í lausnum fyrir fjölskyldur og fyrirtækin í landinu, lausnum sem eru sýnilegar nú á næstu vikum og misserum en ekki með því að nefna aðildarviðræður við ESB. Við getum ekki beðið lengur og þolinmæði fólks er á þrotum, það sást vel á fundinum á Austurvelli í gær.

Þrátt fyrir að  löggjafinn hafi sett margs konar lög, reglugerðir siglt í kjölfarið þá hefur það einfaldlega ekki skilað árangri og flestir finna það áþreifanlega á eigin skinni.  Staða krónunnar er geigvænleg fyrir alla nema útflutningsaðila og það einfaldlega gengur ekki. Gjaldeyrisójafnvægi gerir það að verkum að ekki er hægt að klára efnahagsreikning bankanna. Þeir grípa síðan til þess að lækka innlánsvexti til þess að mæta öðrum kröfum.

Hvað forsætisráðherra segir í munnlegri skýrslu sinni um efnahagsmál gæti vakið von, við skulum bíða og sjá til!

 


Lýðræði þegar það hentar!

Þegar kjörbréfanefnd skilaði nefndaráliti sínu þá skrifaði einn þingmaður, Margrét Tryggvadóttir, undir álitið með fyrirvara. Þannig var að kæra hafði komið fram og þar var þess krafist að kosingarnar þann 25. apríl s.l. yrðu dæmdar ómerkar vegna  misvægi atkvæða milli kjördæma landsins. Þingmaðurinn MT gerði þann fyrirvara við merðferð kjörbréfanefndar að hún sé í megingatriðum samála kærunni og telji misvægi atkvæða brjóta á mannréttindum sínum sem  kjósanda í Suðvesturkjördæmi (þar sem atkvæði að baki hverjum þingmanni eru tæplega 5000 en t.d. tæplega 3000 í Suðurkjördæmi).  Ég tek undir með þingmanninum MT að sjálfsögðu ætti að gilda eitt atkvæði  versus einn kjósandi.

Hins vegar varð ég fyrir vonbrigðum með þann sama þingmann þegar kom að kosningum í fastanefndir Alþingis því þá tóku allir þingmenn Borgarahreyfingarinnar þá ákvörðun að spyrða sig við stjórnarsinna og skekktu þar með lýðræðisleg úrslit kosninganna þann 25. apríl. Þeir skekktu úrslitin með þeim hætt að Sjálfstæðisflokkurinn missti þrjá nefndarmenn og Framsóknarflokkurinn 2.

Þetta kalla ég að nota lýðræðið þegar hentar og það hentar mér ekki.


Ef þetta gengur saman!

" Ef þetta gengur saman þá er það um helgina"  er haft eftir Atla Gíslasyni, þingmanni VG.  Hvernig má skilja þessi orð þingmannsins í ljósi þess að 12 dagar eru liðnir frá kosningum og VG og Samfylkingin eru enn að koma sér saman um sáttmálann sem þeir létu í veðri vaka fyrir kosningar að ekkert mál væri að gera, samstarfið væri svo gott.

 JS og SJS  hafa sagt að verið sé að vinna á fullu í ráðuneytunum en hvað er verið að gera? Er verið að vinna að aðhaldi í rekstri og niðurskurði í takt við gildandi fjárlög 2009? Ef svo er þá berast þær upplýsingar ekki til þjóðarinnar. Ekki eru bankarnir komnir í gang, hjól atvinnulífsins snúast varla, skuldir heimila hækka og ASÍ forsetinn er farinn að hóta " ekki ríkisstjórninni". Stýrivextir lækkuðu í dag, þar kom smá glæta.

Nú reynir á JS og SJS, það er ljóst að hópar að baki þeim eru sundurleitir en ákafir í að ná sínu fram,  tekst þeim að sameina ólík sjónarmið? Hvernig tekst þeim að höndla ASÍ forsetann og hans afgerandi afstöðu og skoðanir,  það er eitthvað alveg nýtt og ærið verkefni fyrir þessa formenn í það minnsta.

Dagarnir líða, hver dagur, hver tími er dýrmætur og ekkert er að gert........ eitthvað á þessa leið hljómuðu þingmenn VG á Alþingi og í fjölmiðlum í desember og janúar? Þannig hljómaði líka fólkið sem stóð á Austurvelli og barði í búsáhöld. Nú er allt hljótt!

 


Ykkar tími er að renna út!

Okkar tími er kominn sagði JS á kosningarnótt,  nú er vika liðin og ekkert bólar á nýrri ríkisstjórn eða nýjum stjórnarsáttmála. Skipti það í raun mestu máli þann 25. apríl að Samfylkingin fékk flesta þingmenn kjörna en hvað svo, hverju hefur það skilað? Engu og það er alveg ljóst að tími fjölskyldna, heimila og fyrirtækja er ekki kominn! Þeirra tími líður og ekkert er að gert.

Hvað er að? Hvers vegna lítur nýr stjórnarsáttmáli ekki dagsins ljós? Er það virkilega að gerast sem fyrr að menn á þeim bænum geta ekki komið sér saman um grundvallaratriðin? Ekki að það komi sérstaklega á óvart en ég hélt að þeir væru komnir lengra  í samkomulagsátt en raun  ber vitni. Minnihlutastjórnin er ekki starfhæf á sama tíma og flokkarnir þjarka um nýja stjórnarsáttmála.

Er ESB að flækjast fyrir þarna eins og sums staðar annars staðar,  hvað er að því að sækja um aðild með skilyrðum, sjá hvað kemur út úr því og leyfa þjóðinni að ráða örlögum sínum í slíkum kosningum eins og öllum öðrum kosningum.    

Það er svo afar kúnstugt að hlusta á formenn VG og Samfylkingar tala um Alþingi eins og þeir gera og hvenær þeir ætli að kalla þingið saman! Ræður framkvæmdarvaldið yfir löggjafarvaldinu? Hvar er nú mikilvægi þrískiptingar valdsins, löggjafar-, dóms - og framkvæmdarvalds sem þessir aðilar hafa löngum talað um og gagnrýnt aðra fyrir að virða ekki. Sú skipting skiptir engu máli nú  því um leið og menn komast í þá aðstöðu að ráða þá eru stóru orðin fljót að gleymast.  

Ég sem þingmaður óska eftir því að Alþingi verði kallað saman strax og löggjafarvaldið  verði virkt á þeim tímun sem nú eru og þar verði rædd  fyrir opnum tjöldum málin sem brenna á þjóðinni nú eins og þau brunnu á þjóðinni í janúar og þá var tíminn að renna út, hvað þá nú. Alþingi setur lögin, framkvæmdarvaldið, ríkistjórnin, framkvæmir! Flóknar er það ekki.

 


Þitt er valið

Á laugardaginn eru mikilvægustu kosningar í langan tíma því við munum kjósa um leiðir út úr þeim vanda sem við blasir. Það hefur á undanförnum dögum komið berlega í ljós að pólitísku flokkana greinir svo sannarlega á um leiðir að markmiðinu. Annars vegar eru leiðir þar sem fremst fer  trúin á fólkið í landinu og hæfni þess til verðmætasköpunar. Hins vegar eru leiðir þar sem forsjárhyggjan og ríkisafskipti eiga að ráða för við verðmætasköpun.       

Ég veit að lægri skattar virka hvetjandi á meðan háir skattar virka letjandi, þessu er öfugt farið með vinstri menn. Ég veit að fólkið og heimilin í landinu þola ekki hærri skatta en vinstri menn ætla að leggja sérstakan skatt á millitekjufólkið og fara síðan ofan í vasa eldra fólks með einhvers konar eignaskatti.

Ég vil að við  nýtum orkuauðlindir landsins til hagsbóta fyrir þjóðina, vinstri menn eru klofnir í þeim málum. Öflug fyrirtæki eru okkar von en virðast eitur í beinum vinstri manna. Þeirra hugmyndir eru að koma  lífvænlegum fyrirtækjum undir sérstakt félag í ríkiseigu og þeir lögðu fram frumvarp á þinginu þar að lútandi.

Ég hef trú á ungu, velmenntuðu og hæfileikaríku fólki og vil veita því tækifæri í frjálsu og opnu samfélagi en í heimi vinstri manna mega engir skara fram úr þar skulu allir vera jafnir.

Margt hefur aflaga farið undanfarið en það hefur gleymst í orrahríð efnahagsmála að ríkissjóður stóð afar vel,velsæld þjóðarinnar var mikil og meðal annars þess vegna mun takast að vinna á vandanum en hann verður hins vegar bæði þyngri og lengri undir vinstri stjórn.

Ég skora á alla hægri menn og konur  að mæta til kosninga á laugardaginn og setja X við D


Jóhanna, Steingrímur J og atvinnulífið!

Það er deginum ljósara að ekkert samfélag nær að blómstra án krafts og atorku einstaklinga og þess vegna verður að veita hugmyndum vinstri manna um ríkisvæðingu samfélagsins viðnám. Jóhanna og Steingrímur J eru fínir stjórnmálamenn og trú því sem þau standa fyrir en í alvöru spurt,  trúir því einhver að þau muni búa til frjósaman jarðveg fyrir íslenskt atvinnulíf - jarðveg þar sem spretta upp ný fyrirtæki sem blómstra ? 

Ekki ég og ég óttast að þeirra pólitísku viðhorf muni kæfa athafnakraft og áræði einstaklinganna, þeirra pólitísku viðhorf virka letjandi á einstaklinga til átaka og sóknar. Íslenskt samfélag má ekki við slíku, það verður að skapa á ný hvetjandi og heilbrigt umhverfi fyrir atvinnulífið, aðeins þannig munum við byggja upp og ná vopnum okkar á nýja leik.

Miklu skiptir í uppbyggingu samfélagsins að Íslandi endurvinni traust og trúverðugleika á alþjóðavettvangi og hingað vilji sækja erlendir fjárfestar  en hvað gera vinstri menn, hvernig birtist þeirra pólitíska sýn? Þeir leggja fram tillögur um að taka upp þegar gerða samninga, ætla sem sagt að breyta leikreglum eftir á og telja líklega að það sé leið til að endurvinna traust og trúverðuleika á alþjóðavettvangi.

Ég spyr enn og aftur trúir því virkilega einhver að Jóhanna og Steingrímur J muni búa til frjósaman jarðveg fyrir íslenskt atvinnulíf?


Hvað vilt þú?

 

Við erum vonandi öll sammála um að brýnustu verkefni okkar nú séu að koma bankakerfinu á fætur, atvinnulífinu í gang og heimilunum til bjargar. En hverjar eru leiðirnar?

Skilvirkt bankakerfi er forsendan og því verður að ljúka við endurskipulagningu fjármálakerfisins hið fyrsta, breyta gildandi peningastefnu og afnema höft á gjaldeyrisviðskipti.

Athafna- og einstaklingsfrelsi er forsenda öflugs atvinnulífs og ég hafna öllum nýjum sköttum á atvinnulíf og einstaklinga því ég tel að þeir muni draga þrótt úr fólki og fyrirtækjum. Ég hafna einnig miðstýringu og ríkisvæðingu vinstri manna því hún grefur undan athafnafrelsi þjóðarinnar og þar með hagsæld hennar.

Það er rík hefð fyrir því á Íslandi að fjölskyldur fjárfesti í sínu eigin húsnæði og nú á þessum erfiðu tímum verður að grípa til róttækra aðgerða til að koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur missi heimili sín vegna tímabundinna fjárhagserfiðleika. Ég styð þá tillögu að íbúðareigendur geti lækkað greiðslubyrði sína um allt að helming í þrjú ár og framlengt lánstímann á móti. Jafnframt þessu verði hugað að höfuðstólslækkun lána til að mæta þeim forsendubresti sem orðið hefur í hagkerfinu. Hér erum við fyrst og síðast að tala um ungt fólk sem hugsanlega fer úr landi ef ekkert er aðgert og mannauðurinn verður aldrei metinn til fjár. Sértækar aðgerðir kosta en þær munu skila sér.

Í kosningunum 25. apríl verður kosið á milli hugmyndafræði hægri manna og vinstri.

  • Hugmyndafræði hægri manna er fólgin í því m.a að athafna - og einstaklingsfrelsi sé forsenda öflugs atvinnulífs sem aftur er frumforsenda þess að hægt sé að verja heimilin og grunnstoðir velferðar- og menntakerfisins.
  • Hugmyndafræði vinstri manna er fólgin í því m.a að miðstýring og ríkisvæðing verði ríkjandi skipan, afskipti hins opinbera á öllum sviðum, hækkun ríkisútgjalda og skatta til að hægt sé að verja velferðar - og menntakerfið.

Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að standa vörð um sjálfstæðisstefnuna því hart er sótt að henni nú. Gerum upp fortíðina en kjósum til framtíðar.


Grímuklætt eða grímulaust!

Þegar grímuklætt fólk ryðst inn á kosingaskrifstofur sumra flokka en ekki allra til þess eins að eyðileggja þá kemur ýmislegt upp í hugann. Fyrst verður mér hugsað til þess þegar grímuklætt fólk ruddist inn í Alþingishúsið og fannst slíkt athæfi við hæfi. Í öðru lagi þegar grímuklætt fólk veittist að lögreglunni fyrir framan Alþingishúsið og þótti það í lagi. Í þriðja lagi velti ég því fyrir mér af hverju sumar kosingaskrifstofur sluppu við innrás og eyðileggingu. Var það tilviljun ein sem því réði? Varla.

Ég verð að viðurkenna að mér koma í hug aðferðir STASI og KGB, hvar aðeins ríkti ein rétt skoðun og ekkert umburðarlyndi gagnvart öðrum skoðunum. Þar ríkti grímulaust ofstæki, hér kynnumst við grímuklæddu ofstæki. Veit ekki hvort er verra!


Skuldir upp á borðið líka

Það hefur heldur betur blásið um Sjálfstæðisflokkinn síðustu daga og ekki að ósekju. En í umræðunni um styrki til þess flokks þá hefur berlega komið í ljós að á þessum tíma voru stjórnmálaflokkar að þiggja styrki frá "auðmönnunum" svokölluðu og fyrirtækjum þeim tengdum. En misháar upphæðir,rétt er það,  en er það ekki allt jafn siðlaust í raun á þeim sama tíma sem verið er að samþykkja lög um hið gagnstæða? En í þessari umræðu þá hef ég virkilega velt því fyrir mér hvort ekki væri rétt að allir stjórnmálaflokkar upplýsi um skuldir sínar og hverjum þeir skulda. Það kynni að skipta máli eða hvað?   

 


Ömurlegt!

Það verður að segjast eins og er að þessar fréttir um styrki FL Group og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins eru ömurlegar. Það var siðlaust að taka við slíkum styrkjum rétt eftir lagasetningu um hið gagnstæða og með öllu óskiljanlegt að slíkt hafi gerst.

Flokkurinn minn stendur á alvarlegum tímamótum og samhliða því að við förum í uppgjör við fortíðina af því er við töldum, sum að minnsta kosti, af heiðarleik og hreinskilni þá kemur þetta í ljós. Kannski bara gott að það birtist nú en ekki seinna.  En það hlýtur að vera skýlaus krafa að ekkert verði nú undanskilið, allt og þá meina ég allt ekki bara sumt, verður að líta dagsins ljós. 

Margur verður að aurum api, segir meira en mörg orð, en umhugsunarvert  því einhver sem ekki veit aura sinna tal, þeim hinum sama finnst ekkert mál að styrkja stjórnmálaflokk um 25 eða 30 milljónir  en það er svona um það bil ársaun grunnskólakennarans í 10 - 13 ár. Þvílíkt og annað siðleysi ég segi og skrifa og ekki minna þeirra sem við taka

Slík viðhorf og vinnubrögð eru óásættanleg.

 

 

 

 


Mínar tillögur að hugsanlegri lausn

Ekki var áætlunin með hugleiðingum um námsmenn og sumarvinnu að sýna einum eða neinum virðingarleysi en af gefnu tilefni þá legg ég hér fram mínar tillögur að hugsanlegri lausn. 

Vandinn var fyrirsjáanlegur um nokkurn tíma en engar lausnir komnar fram enn. Mín skoðun er sú að framhaldsskólarnir þurfi að koma sér saman um hvaða almenn einingarbær námskeiði hægt verði að bjóða og hvaða skólar geti veitt þjónustuna, skólarnir leggi svo sameiginlega fram fjármagn og kennara. Nemendur allra skóla eigi síðan þess kost, kjósi þeir svo, að stunda sumarnám sem verði virt sem einingarbært nám innan þess skóla sem þeir stunda sitt vetrarnám.

Hvað háskólana varðar þá ætla HR og Bifröst að bjóða sumarnám án þess að óska eftir aukafjárveitingu en ríkisreknu háskólarnir ekki af því er virðist, það er umhugsunarvert í sjálfu sér. Nám á háskólastigi er hins vegar sérhæfðara en almennt framhaldsskólanám en það er engu að síður mín skoðun að í því árferði sem nú er ættu háskólar í landinu að reyna samvinnu áþekka því sem ég nefni um framhaldsskólana. Það hlýtur að vera flötur á slíkri samvinnu innan greina sem kenndar eru í öllum háskólunum. Slík samvinna kæmi án efa einhverjum að gagni.

Það er ljóst í mínum huga að skynsamlegra er að veita aukafjárveitingu til menntastofnana heldur en að nemendur í framhalds- og háskólum flosni úr námi. Hugsanlega mætti nýta fjármagnið sem ríksistjórnin hefur áætlað að leggja til við plöntun trjáa á næstkomandi sumri og geyma það verkefni þar til síðar. Ég verð hins vegar að játa að ég hef ekki forsendurnar til að meta kostnað við þessar tillögur mínar en fram til þessa hafa engar tillögur litið dagsins ljós svo það mætti þá leggja til að mínar yrðu kostnaðargreindar.

 

 


Námsmenn og engin sumarvinna

Atvinnuhorfur námsmanna bæði á háskóla - og framhaldsskólastigi eru skelfilegar því við blasir að um 13 þúsund námsmenn verði án sumarvinnu og því fylgja enn fleiri vandamál til framtíðar litið.

Rauðgræn ríkisstjórn ákvað 20. febrúar s.l að mynda framkvæmdarnefnd um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar og eru fjórir stýrihópar starfandi. Einn hópurinn átti að gera grein fyrir atvinnuhorfum námsmanna á á háskólastigi og var markmið hópsins að undirbyggja stefnu og ákvarðanir er varða atvinnumál námsmanna.  Gott  í sjálfu sér en ekkert gagn af ennþá og engar tillögur litið dagsins ljós. Tíminn er að renna út !

Nám er vinna og því þarf að gefa námsmönnum á þessum skólastigum tækifæri  til að stunda áframhaldandi nám með einhverjum hætti í sumar. Það er fjárhagslega, félagslega og tilfinningalega hagkvæmt þrátt fyrir aukinn kostnað skólanna.  Það er augljóst að hægt er að nýta fjölbreyttar kennsluaðferðir í fjarnámi, stað- og fjarbundna verkefnavinnu með leiðsögn og margar aðrar leiðir eru færa og ég er þess fullviss að frumkvæði og áræðni fagfólksins á þessum skólastigum mun leiða til lausna.

Ég veit hvaða afleiðingar það getur haft ef nemendur flosna upp úr námi og aldur skiptir þar engu máli. Samfélagið allt glímir síðar við þau  tilfinninga- og félagslegu vandamál sem skapast við síkar aðstæður, við skulum forða því, ganga hreint til verks  og gera námsmönnum kleift að stunda sitt nám í sumar ef þeir svo kjósa. Munum að  nám er vinna og að menntun er fjárfesting til framtíðar.    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband