Og svarið er...

Á Alþingi þann 1. júlí 2009 spurði ég viðskiptaráðherrann  Gylfa Magnússon hvort hann teldi lögmæti  myntkörfulána, sem virðast vera krónulán með erlendu viðmiði, hafið yfir allan vafa og vísaði til laga um vexti og verðtryggingu frá 2001. Ráðherrann, sem sagðist vera að svara spurningu minni, svarar um lán í erlendir mynt og að lögfræðingar í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafi vitaskuld skoðað málið og niðurstaða þeirra sé að lánin séu lögmæt. Hann jafnframt ræðir réttaróvissu og að sá sem telji lánin ólögmæt geti látið á það reyna fyrir dómstólum. Ef ráðherrann er að tala um lán í erlendri mynt en ekki myntkörfulán ríkti þá einhver réttaróvissa, eru slík lán ekki lögmæt í dag sem og þann 1. júlí 2009?

Meginmálið er að fyrir lágu lögfræðiálit um ólögmæti myntkörfulána bæði í Seðlabankanum og í viðskiptaráðuneytinu  en ráðherrann annað tveggja vissi ekki af þeim á þeim tíma eða kaus að greina ekki frá. Ljóst er hins vegar að innan stjórnsýslunnar lágu þessar upplýsingar fyrir en ekki var gerð grein fyrir þeim af því er virðist hvorki innan ríkisstjórnar né til þingsins. Það er óásættanlegt fyrir alla.

En látum vera að ráðherra segist vera að svara spurningu þingmanns enn sé jafnframt meðvitaður um að hann er svara einhverju öðru en að er spurt. Hitt er miklu alvarlegra að á þessum tíma er verið að færa eignir frá gömlu föllnum bönkunum yfir í hina nýju og viðskiptaráðuneytið nýtir ekki vitneskju um ólögmæti myntkörfulána í þeirri yfirfærslu og kann með því að hafa skapað ríkissjóði ómæld fjárútlát og jafnvel skaðabótaskyldu. Hvaða áhrif gæti þetta haft á nýju bankana, hvert er í raun þeirra eignasafn og hverra er ábyrgðin?

Frá því í bankahruninu í október 2008 þá hefur forsendurbrestur hagkerfisins marg oft verið ræddur, fyrst hverra var ábyrgðin og síðan leiðir út úr vandanum, leiðir til þess að aðstoða  fyrirtæki og fjölskyldur í landinu.  Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa margsagt að ekki væru til fjármunir til þess að lækka höfuðstól lána fjölskylda vegna þess forsendubrests sem varð í hagkerfinu. En á sama tíma er innan ríkisstjórnarinnar og stjórnsýslunnar  legið á upplýsingum í heilt ár, upplýsingum sem gætu hafa komið fjölskyldum í landinu til góða og það látið óátalið að gengið er fram með hörku í innheimtu gagnvart lántakendum myntkörfulána. Slík vinnubrögð eru ekki þeim til sóma sem þau viðhafa.

Það er einnig umhugsunarvert hvernig ráðherrar í ríkisstjórn brugðust við niðurstöðum Hæstaréttar og þá sérstaklega viðskiptaráðherrann sem vissi þá af álitum um ólögmæti myntkörfulána, hvers vegna var engin viðbragðsáætlun til í ráðuneyti bankamála? Er það ásættanlegt miðað við það sem við vitum í dag? 

Einföld og skýr spurning  til viðskiptaráðherra þann 1. júlí 2009 hefði aldrei átt að kalla á þá umræðu sem fram hefur farið undanfarna daga, viðskiptaráðherra hefði átt að skýra frá þeim álitum sem fyrir lágu og ríkisstjórnin að bregðast við þeim, flóknar er það ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband