Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi og að baki þingflokki flokksins stendur stærri hluti þjóðarinnar en að baki nokkrum öðrum þingflokki á Alþingi. Þannig er það og hefur verið lengi. Skoðanakannanir dagsins í dag breyta engu þar um, þjóðin ræður í kosningum og þær verða næst þann 25. april og þar til þau úrslit liggja fyrir stendur fyrrnefnd staðreynd.
En aðrir þingflokkar, sem hver um sig hefur aldrei komist með tærnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hælana hvað varðar þingmannafjölda, þeir ákveða nú að valta yfir þingflokk Sjálfstæðisflokksins í frumvarpi til stjórnskipunarlaga og rjúfa þar með hefð um almenna samstöðu allra flokka. 1918 og 1959 voru gerðar breytingar á stjórnarskrá í andstöðu við Framsóknarflokkinn og þær breytingar snerust um kjördæmaskipan og kosningar og vörðuðu beint hagsmuni viðkomandi flokks. Slíku er ekki til að dreifa nú.
Hefðin um almenna samstöðu allra flokka er nú rofin og með því að naumur meirihluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stærsta stjórnamálaflokk landsins þá er verið að færa stjórnarskrána inn í hringiðu stjórnmálanna og það er með öllu ólíðandi. Þess má því vænta að næsti meirihluti, naumur eða ríflegur, geri þær breytingar sem honum hugnast á stjórnarskránni og með því háttarlagi sem nú er lagt upp með, geti gert stjórnarskrána að pólitísku plaggi. Þvílíkt óráð.
Stjórnarskráin á að vera hafin yfir pólitískar deilur á hverjum tíma en svo er ekki nú því miður. Þar að auki er málsmeðferð verulega ábótavant, hraðinn er mikill, skortur á samráði við fræðasamfélagið almennt, atvinnulífið og ýmsa aðra hagsmunaaðila. Jafnframt er þversögn fólgin í því að gera efnisbreytingar á stjórnarskrá og koma á sama tíma á fót stjórnlagaþingi. Hvað er það í raun sem ræður för?
Sagt er að valdið komi frá þjóðinni í kosningum, þjóðin hefur ekki talað síðan í þingkosningunum 2007 og þá veitti hún ekki 7 þingmönnum Framsóknarflokksins umboð til að setja afdráttarlaus skilyrði um eitt eða neitt. En sá þingflokkur með Valgerði Sverrisdóttur í broddi fylkingar, fer nú fram með offorsi í þessu máli, í krafti stuðnings síns við minnihluta ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Er þetta birtingarmynd lýðræðis þessara flokka? Öðru vísi mér áður brá eða eru breytingar á stjórnarskránni kannski kveðjugjöf til Valgerðar Sverrisdóttur sem nú hverfur af þingi eftir áralanga setu?
Þú hlýtur að vera að grínast,Gylfi?
26.3.2009 | 14:22
Hvar er nú jafnréttið og jafnræðið?
Ef þú ert karl á lista Samfylkingarinnar og hugsanlega ekki í mögulegu þingsæti þá er í lagi að fá launalaust leyfi hjá ASÍ og taka þátt í kosingabaráttu og koma aftur til vinnu að kosningum loknum.
En ef þú ert kona í 1. sæti hjá Framsóknarflokknum í Reykjavík, sæti sem í dag er ekki þingsæti og óvíst hvort verður, þá verður þú að segja starfi þínu lausu, taka þátt í kosningabaráttu og ef þingsæti ekki næst, leita þér að vinnu á nýjan leik, nema ASÍ forsetinn ætli ekki að auglýsa starfið fyrr en að kosningum loknum.
ASÍ forsetinn segir að ekki sé að því fundið að starfsmenn ASÍ sinni pólitísku starfi og jafnvel er það talið fólki til framdráttar sem er nú umhugsunarefni út af fyrir sig en um framsóknarkonuna segir hann jafnframt " ..þegar hins vegar svo er komið að fólk er farið að leiða lista og á þingsæti víst er rétt að leiðir skilji " ...mikið er vald hans og máttur að geta nú mánuði fyrir kosningar kveðið upp úr með þessum hætti um kosningar í Reykjavík .
Framkoma ASÍ forsetans er svo valdsmannsleg og hrokafull að það er með eindæmum. Ég tel það verulegt áhyggjuefni að einstaklingum sé mismunað með þessum hætti og velti fyrir mér hæfni forystunnar til ákvarðanatöku almennt þegar slíkt blasir við.
Þú hlýtur að vera að grínast, Gylfi?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook
Fréttir ekki fréttir!
19.3.2009 | 23:03
Það er stundum skondið að fylgjast með fyrirsögnum fjölmiðla og á hvern hátt þeir ákveða hvað eru fréttir og hvað ekki fréttir.
Ekki fór mikið fyrir þeirri frétt að ÖSE ætlaði að hafa hér eftirlitsmenn með kosningunum þann 25. apríl n.k. En ég verð að segja að það fór hrollur um mig við fréttina, hvað er eiginlega langt síðan vestrænt ríki hefur þurft að sæta slíku eftirliti? 'Eg velti fyrir mér hvort fyrirhugaðar breytingar á kosningalögum svona rétt fyrir Alþingiskosningar séu ástæðan og ef svo er þá mega stjórnarflokkarnir skammast sín.
Frétt eða ekki frétt ! Undur og stórmerki það er komið framboð í formann Samfylkingarinnar! Datt einhverjum í hug að þetta yrði með öðrum hætti, þetta var svo fyrirsjáanlegt að það hálfa gat verið nóg. En gott samt, Jóhanna Sigurðardóttir er verðug formaður, hreinskiptin og heiðarleg en örugglega dálítið þver. Samfylkingin mun fljóta langt á þessu!! því miður !
Eftir prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík um síðustu helgi þótti í fréttum tíðindum sæta fylgi Jóhönnu Sigurðardóttur í 1. sæti og talað var um yfirburðasigur en í það sæti bauð enginn sig fram nema hún. Það hljóta hins vegar að vera tíðindi í flokki jafnaðarmanna að engir voru valkostir kjósenda. En það þótti hins vegar ekki fréttnæmt né heldur gengi Össurar Skarphéðinssonar í 2. sæti og lítt sem ekkert um það fjallað og vekur það furðu satt best að segja.
Jafnframt þóttu þau ekki frétt atkvæðin 400 sem skutu Steingrími J. Sigfússyni í 1. sæti í Norðausturkjördæmi. Er nema von að maður verði stundum hissa.
Ég hef líka verið hugsi yfir fjölmiðlum frá því Sigmundur Ernir hætti á 365 miðlum og sagðist vera "frjáls undan oki auðmanna" að ekki þótti fréttamönnum ástæða til að rekja garnirnar úr honum vegna þessara orða. En við hin sem höfum fylgst með SE hjá 365 miðlum hljótum að spyrja okkur þeirra spurninga hvort hann hafi gengið erinda auðmanna og þá á hvern hátt eða hvað hann eigi við með þessum orðum sínum. Sigmundur Ernir mun skipa 2. sæti Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi í næstu Alþingiskosningum og það hljóta fleiri en ég að óska skýringa á orðum " verðandi þingmanns."
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.3.2009 kl. 00:46 | Slóð | Facebook
Pólitísk skipun bankaráðs Seðlabankans
17.3.2009 | 12:36
Þá gerðist það enn einu sinni að pólitískt er skipað í bankaráð Seðlabanka Íslands. Það voru mikil mistök við frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur o.fl. um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands að flutningsmenn skyldu ekki gera breytingar á þeirri grein er lýtur að bankaráði og slíta þar með bein flokkspólitísk tengsl.
Ef til skorti flutningsmenn ekki bara kjark heldur vilja til þess að breyta, pólitíkusar eru kannski svo bundnir í viðjar vanans að þeir ná ekki að hugsa út fyrir rammann. Ég tel það löngu tímabært að skipa með öðrum hætti í bankaráð SÍ sem og annarra ríkisbanka og kem með hugmynd þar að lútandi. Það mætti t.d hugsa sér að háskólasamfélagið, samtök atvinnulífs og iðnaðar, verkalýðs-félögin og samtök fjármálafyrirtækja tilnefndu fulltrúa og að formaður væri síðan kosinn af tilnefndum fulltrúum. Kannski er þetta galin hugmynd en getur ekki verið verri en hin flokkpólitíska það er nokkuð ljóst.
Aldrei orðlaus en hvað er í gangi?
15.3.2009 | 04:21
Ræða á fundi í Garðabæ að kvöldi 12. mars
13.3.2009 | 11:59
Endurreisnin í samfélaginu byrjar ekki á því að breyta um vinnubrögð heldur viðhorf. Máltækið segir að orð séu til alls fyrst en á undan orðunum kemur engu að síður, - eða ætti að minnsta kosti að koma hugsun og um leið viðhorf. Eitt af mörgum þörfum verkefnum við endurreisnina framundan er að breyta viðhorfi okkar til ýmissa þátta í samfélaginu, viðhorfum okkar til auðs og valds, til samkenndar og samstöðu, viðhorfum til velferðarsamfélagsins, til gegnsæis í ákvarðanatökum og upplýsingamiðlunar.
Við erum öll sammála um að brýnustu verkefni okkar nú sé að koma bankakerfinu á fætur, atvinnulífinu í gang og heimilunum til bjargar. Við erum líka sammála um að stór mál á borð við alþjóðasamskipti, gjaldmiðil og nýtingu náttúruauðlinda þarfnist tafarlausrar umræðu og skjótrar en vandaðrar ákvarðanatöku. Og þjóðin öll er áreiðanlega sammála um nauðsyn þess að Íslendingar endurheimti traust sitt á alþjóðavettvangi og til þess að það gerist þurfum við að lyfta Grettistaki.
En fyrst þurfum við að treysta innviðina. Við þurfum að efla okkar eigin sjálfsmynd og traust fólksins í landinu á kjörnum fulltrúum sínum á þingi, stjórnvöldum og embættismönnum. Viðhorfskannanir sýna að Alþingi vermir eitt af botnsætunum í trausti fólks á opinberum stofnunum. Á meðan sú er staðreyndin er erfitt að ætlast til þess að við endurheimtum traust og virðingu alþjóðasamfélagsins. Uppreisn æru á þeim vettvangi er nauðsynleg forsenda þess að atvinnulíf fái þrifist með eðlilegum hætti og að við getum á nýjan leik staðið hnarreist sem þjóð meðal þjóða.
Ég hef leyft mér að halda uppi gagnrýni á störf Alþingis frá því ég tók þar sæti og ég er sannfærð um að breytt vinnulag á þinginu getur skipt miklu máli fyrir almenning í landinu. Það er óþolandi fyrir bæði þingmenn og kjósendur þeirra að þingið sé sett í hlutverk afgreiðslustofnunar og samþykki jafnvel flóknustu mál á augabragði af því að ráðherrum ríkisstjórnar á hverjum tíma, liggur á að koma málum í gegn. Hlutverk löggjafarvaldsins sem fer með umboð þjóðarinnar til ákvarðanatöku er miklu stærra og þýðingarmeira en svo að þessi þróun verði ekki stöðvuð.
Ég hef í störfum mínum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, bæði í sveitarstjórn og á þingi, kappkostað að vera í senn góður liðsmaður og gagnrýninn. Ég hef líka í senn reynt að tjá mig af yfirvegun en jafnframt tæpitungulaust og ég vona að við séum sammála um að þörf sé fyrir opnari umræðu og skoðanaskipti en verið hefur og það teljist frekar til dyggða en lasta að segja hug sinn með skýrum hætti
Við þurfum að breyta vinnulagi og viðhorfi og góð byrjun er að breyta vinnulagi innan stjórnmálaflokkanna sjálfra. Þar getur Sjálfstæðisflokkurinn tekið þýðingarmikla forystu og ég er reiðubúin til að leggja allt mitt af mörkum í þeim efnum.
Kæru sjálfstæðismenn
Ég óska eftir stuðningi ykkar í 3ja sæti í þessu prófkjöri okkar og grundvalla framboð mitt á þeirri einlægu sannfæringu minni að það sé ekki bara pláss heldur þörf fyrir fólk sem kemur til dyranna eins og það er klætt og nálgast verkefni sín af heiðarleika.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook
Gegnsæi og heiðarleiki
13.3.2009 | 11:55
Að fara eða vera?
12.3.2009 | 14:53
Frá því þingmenn þingflokks Bandalags jafnaðarmanna lögðu þingflokkinn niður sisona og gengu í aðra þingflokka hef ég verið þeirra skoðunar að slík framganga sé ótæk, þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar um að þingmaður sé aðeins bundinn sannfæringu sinni og samvisku.
Það er sérkennilegt í mínum huga að taka sæti á framboðslista stjórnmálaflokks, ná kjöri til Alþingis sem fulltrúi á þeim lista en ákveða síðan einhverra hluta vegna að eiga ekki samleið með þingflokknum og fara. Ef þingmaður ákveður engu að síður að sitja áfram á þingi, þá er það í mínum huga algerlega klárt, að hann kýs þá að sitja sem slíkur utan flokka. Annan kost hefur hann einnig að segja einfaldlega af sér en að ganga til liðs við annan flokk er í mínum huga svik við þá kjósendur sem kusu þingmanninn til setu á Alþingi.
Af gefnu tilefni þar sem þingmaður úr Frjálslynda flokknum gekk til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins þá er honum vel kunnugt um þessa skoðun mína, því ég fer ekki í neinar grafgötur með hana.
Það væri fróðlegt að heyra hvað kjósendum þykir um þetta.
Breytingar á kosningalöggjöf
11.3.2009 | 11:46
Á þingi er verið að ræða m.a. breytingar á kosningalögum og í nýju frumvarpi sem fyrir liggur er áherslan lögð á persónukjör innan lista eða raðaðan lista sem stjórnmálaflokkar og hreyfingar bjóða fram. Margt er þarna áhugavert og tekur mið af því sem gerist í öðrum löndum en ég tel að við þurfum að ræða frekar.
Það er nauðsynlegt að kalla til ýmis félagasamtök, stjórnmálahreyfingar sem ekki eiga fulltrúa á þingi og fleiri t.d. fulltrúa Radda fólksins til að ræða þetta mál og kanna hug fólks til þessara breytinga. En ekki síst tel ég óráðlegt að fara fram með þetta fyrir næstu kosningar því lögfræðinga greinir á um hvort 31. grein stjórnarskrárinnar ráði för en þar segir m.a. að slíkar breytingar á kosningalöggjöf verði aðeins gerðar með samþykki 2 / 3 atkvæða á Alþingi. Forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, sú ágæta kona , telur að þetta eigi ekki við, ég er henni ósammála. Það er kristaltært í mínum huga að við getum ekki gengið til kosninga nú á vormánuðum ef um þær ríkir réttaróvissa vegna breytinga á kosningalöggjöfinni sem gæti leitt til þess að kosingarnar yrðu kærða og hugsanlega ógildar. Það er móðgun við þjóðina og ekki þarf hún á því að halda nú. Gefum okkur tíma í þessar breytingar og náum um þær sæmilegri sátt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook
Ég vil breytingar
8.3.2009 | 21:22
Ég vil breytingar
Á þessum umrótatímum er mikið rætt um breytingar og nýja Ísland án þess að breytingarnar séu skilgreindar frekar. Eiga þær einar að verða að fram kemur ný ríkistjórn sem segist vera starfstjórn í stuttan tíma og ætli að vinna hratt og vel, nægja slíkar yfirlýsingar okkur hinum ef engar eða litlar eru efndirnar. Ég segi nei.
Í nefndum Alþingis eru nú sem fyrr unnið með frumvörp sem lögð hafa verið fram, sum þeirra tengjast þeim erfiðleikum sem heimili og fyrirtæki eiga við að etja og er afar brýnt að klára þau fyrir þingrof og kosningar. Það skiptir hins vegar megin máli að í þeirri löggjöf verði að finna raunveruleg úrræði sem gagnist þeim sem á þurfa að halda og brýnt að um þau náist þverfagleg pólitísk samstaða. Önnur þingmál eiga að mínu mati að bíða og verða þá endurflutt telji flutningsmenn að þau eigi við.
Það er jafnframt tímabært að huga að öðrum breytingum sem nauðsynlegar eru í ferli endurreisnar sem fram undan er í íslensku samfélagi.
Ég segi enn og aftur að afar nauðsynlegt er að styrkja þingræðið og koma á valdajafnvægi þings og framkvæmdarvalds. Þá tel ég einnig brýnt að fara í endurskoðun á stjórnaskránni og um þá endurskoðun verður að ríkja sátt á meðal þjóðarinnar því stjórnarskráin er hennar en ekki fárra útvalinna.
Í ljósi þeirra aðstæðna sem við stöndum frammi fyrir verðum við að vera sammála um að auka gegnsæi í viðskiptum almennt og efla siðvitið á þeim vettvangi. Það þarf að binda í lög að hvers konar krosseignatengsl fyrirtækja jafnt sem fjölmiðla verði óheimil og í stað þess komi skilyrði um dreifða eignaraðild. Hluta hrunsins má rekja til þess að siðferðið brást á hinum frjálsa markaði þar sem eignatilfærsla á grundvelli forréttinda og samþjöppun auðs fór hamförum. Við þurfum að koma í veg fyrir slíkt í framtíðinni.
Eftirlitið brást einnig og því verður að endurskoða regluverkið og umgjörðina alla til þess að nýliðnir atburðir endurtaki sig ekki.,
Öllum er ljóst að pólitískar stöðuveitingar hafa tíðkast hér á landi árum saman. Hér þarf að taka af skarið og sjá til þess að opinberar stöðuveitingar verði metnar á faglegum og hlutlægum grunni og það verður að skera á öll pólitísk tengsl stjórnmálaflokka, ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja.
Við verðum að ráðast í ofangreindar breytingar til að efla á ný trúnað og traust á milli stofnana ríkisins og þingsins annars vegar og þjóðarinnar hins vegar. Trúnaður og traust er undirstaða þess að okkur takist að vinna úr þeim mikla vanda sem við blasir, stöndum saman í því verkefni.
Stórtíðindi í pólitíkinni
8.3.2009 | 20:29
Það eru stórtíðindi að Ingibjörg Sólrún hafi ákveðið að hætta í póltík, hún hefur verið litríkur stjórnmálamaður og límið í Samfylkingunni. 'Eg óska henni alls hins besta, þakka henni samstarfið bæði á vettvangi sveitarstjórnamála sem og á þingi og vona að hún nái heilsu sem fyrst.
Það verður hins vegar fróðlegt að fylgjast með Samfylkingarfólki nú næstu daga, hvernig gömlu flokkabrotin fara af stað í leit að nýjum formanni. Og algerlega er óvíst að nýr formaður fylgi tvíeykishugmmynd ISG og Jóhannu Sig. sem þegar hefur líst því yfir að hún muni ekki gefa kost á sér í formannssætið. Hún vakti reyndar furðu mína tvíeykis yfirlýsing þeirra tveggja sem virkaði sem fyrirskipun til flokksmanna um að svona skyldi þetta verða og ekkert múður. Það bar ekki vott um lýðræði í Samfylkingunni frekar foringjaræði sem flestir gagnrýna í dag sem betur fer.
Nú eru þrír af fimm formönnum stjórnarmálaflokkanna sem eiga fulltrúa á Alþingi horfnir á braut eftir sitja Guðjón A Kristjánsson og Steingrímu J. Sigfússon sem setið hefur næstlengst núverandi þingmanna eða í 25 ár og telur ekki að tími sé til að víkja. Það verða því þrír nýir formenn sem takast á í komandi kosningum og tvei gamlir ef svo mætti segja og það verður fróðlegt að fylgjast með þeirri rimmu.
Það sem er hins vegar gleðilegt við tíðindi helgarinnar er gott gengi kvenna í forkosningum og prófkjörum og óska ég þeim til hamingju. En ykkur líka strákar!
Opið hús hjá Ragnheiði Ríkharðsdóttur
6.3.2009 | 18:20
Af hverju að sækjast eftir þingsæti?
5.3.2009 | 14:57
Þjóðarskútunni var siglt í kafi, tími uppgjörs og uppbyggingar er í farvatninu og mig langar að bjóða fram krafta mína og áræðni í því endurreisnar starfi sem framundan er í íslensku samfélagi.
Ég tel afar mikilvægt að byggja þá endurreisn á grunngildum Sjálfstæðisflokksins, fylgja mannúðlegri markaðshyggju samhliða öflugu fjölskyldu-, velferðar - og menntakerfi.
Forsenda kjörorðsins um " stétt með stétt ", sem gleymdist í hrunadansinum mikla, byggir á því að öllum sé tryggður jafn réttur til menntunar og starfa og skilyrði til að þroska og fá notið hæfileika sinna. Þess vegna skiptir mannauðurinn okkur mestu í þeirri uppbyggingu sem framundan er, ég skora á sjálfstæðismenn að standa vörð um grunngildin okkar og fá fleiri til liðs við okkur því það mun skila þjóðinni árangri á öllum sviðum.
Það eru mörg verkefni sem bíða og því er nauðsynlegt að forgangsraða og nefni ég hér nokkur þeirra verkefna sem brýnt er að ráðast í:
- að styrkja hag heimila og fyrirtækja með aðgerðum til leiðréttingar á verðtryggðum og gengistryggðum lánum og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot
- að draga úr atvinnuleysi m.a. með nýsköpun og mannaflsfrekum framkvæmdum
- að klára umræðuna um gjaldmiðilinn
- að sýna verulegt aðhald í almennum ríkisrekstri
- að efla siðferði í viðskiptum og spyrna við fákeppni
- að koma í veg fyrir að leiðin út úr vandanum sem við blasir, verði vörðuð ríkisrekstri og afskiptum stjórnmálamanna.
Þau skilaboð til fólksins í landinu að við berum ekki pólitíska ábyrgð eru röng. Það skiptir afar miklu máli að við sjálfstæðismenn gaumgæfum það sem miður fór í efnahagslífi þjóðarinnar, tökum ábyrgð á þvi sem er okkar, lærum af reynslunni því þannig munum við treysta inniviðina og öðlast trúverðugleika á ný. Kraftur okkar og áræðni í uppgjöri fortíðarinnar verður styrkur okkar í framtíðinni.
Ég býð fram karfta mína og áræðni og óska eftir stuðningi í 3ja sæti í prófkjöri Sjálfstæðiflokksins í Suðvestukjördæmi.
Við berum pólitíska ábyrgð
5.3.2009 | 14:57
"NÚ ER það mikilvægara en nokkru sinni fyrr að Sjálfstæðisflokkurinn standi vörð um grunngildin því harkalega er sótt að þeirri lífsskoðun að athafna- og einstaklingsfrelsi skuli liggja þjóðskipulaginu til grundavallar."
NÚ ER það mikilvægara en nokkru sinni fyrr að Sjálfstæðisflokkurinn standi vörð um grunngildin því harkalega er sótt að þeirri lífsskoðun að athafna- og einstaklingsfrelsi skuli liggja þjóðskipulaginu til grundavallar. Í endurreisn íslensks samfélags verðum við að byggja á grunngildum okkar, fylgja mannúðlegri markaðshyggju samhliða öflugu fjölskyldu-, velferðar- og menntakerfi.
Forsenda kjörorðsins um stétt með stétt", sem gleymdist í hrunadansinum mikla, byggist á því að öllum sé tryggður jafn réttur til menntunar og starfa og skilyrði til að þroska og fá notið hæfileika sinna. Þess vegna skiptir mannauðurinn okkur mestu í þeirri uppbyggingu sem framundan er, stöndum vörð um grunngildin okkar, sjálfstæðismenn, og fáum fleiri til liðs við okkur því það mun skila þjóðinni árangri á öllum sviðum.
Þau skilaboð til fólksins í landinu að við, sjálfstæðismenn, berum ekki pólitíska ábyrgð eru röng. Það skiptir afar miklu máli að við gaumgæfum það sem miður fór í efnahagslífi þjóðarinnar, tökum ábyrgð á því sem er okkar, lærum af reynslunni því þannig munum við treysta inniviðina og öðlast trúverðugleika á ný. Kraftur okkar og áræðni í uppgjöri fortíðarinnar verður styrkur okkar í framtíðinni.
Ég hef vakið athygli á ójafnvægi á milli þings og framkvæmdavalds og tel að styrkja þurfi þingræðið og koma á valdajafnvægi þings og framkvæmdavalds. Endurskoðun stjórnaskrárinnar er brýn en um þá endurskoðun verður að ríkja sátt hjá þjóðinni, því stjórnarskráin er hennar en ekki fárra útvalinna. Við Íslendingar stöndum á tímamótum og þurfum að ákveða hvaða skref verða stigin á næstu mánuðum og árum. Hvar viljum við vera í samfélagi þjóða og hvernig ætlum við að byggja upp traust og trúnað, annars vegar á milli þjóðarinnar innbyrðis og hins vegar á alþjóðavettvangi? Ég býð fram krafta mína og áræðni í endurreisnarstarfi íslensks samfélags.
Höfundur er þingmaður og býður sig fram í 3ja sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 4. mars 2009.