Við höfum viljann og kraftinn

Hagur heimilanna byggir á atvinnu og öryggi, hvorki skuldavandanum né hinum félagslega vanda verður eytt nema fólk hafi vinnu, hafi tekjur til að greiða niður lánin og ráðstöfunartekjur til að leyfa sér og börnum sínum að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Við verðum að auka verðmætasköpun í landinu og gefa fólkinu von um betri framtíð. Við þurfum öflugt atvinnulíf nú þegar.  Í dag er stór hluti viðskiptalífsins í eigu hins opinbera  og á meðan svo er alveg ljóst að kreppan heldur áfram að dýpka. Því fyrr sem fyrirtækin komast úr eigu ríkisins og úr krampatökum bankanna og nýir eigendur eða hinir gömlu fá tækifæri til að vera í friði  fyrir afskiptasemi hins opinbera og banka því fyrr mun efnahagslífið taka við sér.  Við þurfum að eyða þeirri óvissu í atvinnulífinu sem nú ríkir og ryðja úr vegi hindrunum á ýmsum sviðum.  Það er kristaltært að aukin atvinna eykur tekjur, dregur úr útgjöldum ríkissjóðs m.a. vegna atvinnuleysisbóta og skilar þjóðinni efnahags- og félagslegum hagvexti. Þetta er einfalt við þurfum fleiri atvinnutækifæri fyrir fólkið í landinu, fólkið sem hefur viljann, getuna og kraftinn.

Það gengur ekki að ræða skuldavanda heimilanna og samhliða að auka álögur á fólkið í landinu. Í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er verið að ræða álögur á fólkið í landinu sem nemur 13,5 milljörðum. Þar ber fyrst að nefna frystingu persónuafsláttar auk skattahækkana á síðasta ári, auknar álögur á áfengi og tóbak sem og bifreiðar, álögur sem hækka höfuðstól lána og auka þar með á skuldavanda heimilanna. Sömuleiðis er á döfinni skerðing vaxta- og barnabóta að upphæð 3, 3 milljarða. Nú er svo komið að millitekjufólkið sem hingað til hefur getað staðið undir skattahækkunum og greiðslu lána er líka að missa móðinn og þá er fokið í flest skjól. Við verðum að snúa af þessari braut, það sjá að ég held flestir. Lækkum skatta, drögum úr álögum á fólkið í landinu, aukum þannig ráðstöfunartekjur þess, gefum fólkinu í landinu von og tækifæri til að vinna sig út úr vandanum.  Hagnaðurinn verður bæði fyrir fólkið í landinu og ekki síður fyrir ríkissjóð.

Það varð forsendubrestur í hagkerfinu og þeim forsendubresti verða lánveitendur og lánþegar að skipta á milli sín með einhverjum hætti. Það samtal verður að eiga sér stað því sanngirni er ekki fólgin í því að fólkið og fyrirtækinu í landinu beri þann forsendubrest eitt. Hvort heldur rætt er um lengingu lána, lækkun greiðslubyrði, lækkun höfuðstóls, afskriftir skulda eða hvaðeina annað þá verður að ljúka þessu samtali fyrr en seinna. Byggjum upp traust að nýju á fjármálastofnunum, þær þurfa þess og við einnig til þess að unnt sé að horfa til framtíðar í uppbyggingu samfélagsins. Við þurfum öflugt atvinnulíf, lægri skatta, gefum von um betri framtíð því viljann til að vinna hefur þjóðin.


Og svarið er...

Á Alþingi þann 1. júlí 2009 spurði ég viðskiptaráðherrann  Gylfa Magnússon hvort hann teldi lögmæti  myntkörfulána, sem virðast vera krónulán með erlendu viðmiði, hafið yfir allan vafa og vísaði til laga um vexti og verðtryggingu frá 2001. Ráðherrann, sem sagðist vera að svara spurningu minni, svarar um lán í erlendir mynt og að lögfræðingar í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafi vitaskuld skoðað málið og niðurstaða þeirra sé að lánin séu lögmæt. Hann jafnframt ræðir réttaróvissu og að sá sem telji lánin ólögmæt geti látið á það reyna fyrir dómstólum. Ef ráðherrann er að tala um lán í erlendri mynt en ekki myntkörfulán ríkti þá einhver réttaróvissa, eru slík lán ekki lögmæt í dag sem og þann 1. júlí 2009?

Meginmálið er að fyrir lágu lögfræðiálit um ólögmæti myntkörfulána bæði í Seðlabankanum og í viðskiptaráðuneytinu  en ráðherrann annað tveggja vissi ekki af þeim á þeim tíma eða kaus að greina ekki frá. Ljóst er hins vegar að innan stjórnsýslunnar lágu þessar upplýsingar fyrir en ekki var gerð grein fyrir þeim af því er virðist hvorki innan ríkisstjórnar né til þingsins. Það er óásættanlegt fyrir alla.

En látum vera að ráðherra segist vera að svara spurningu þingmanns enn sé jafnframt meðvitaður um að hann er svara einhverju öðru en að er spurt. Hitt er miklu alvarlegra að á þessum tíma er verið að færa eignir frá gömlu föllnum bönkunum yfir í hina nýju og viðskiptaráðuneytið nýtir ekki vitneskju um ólögmæti myntkörfulána í þeirri yfirfærslu og kann með því að hafa skapað ríkissjóði ómæld fjárútlát og jafnvel skaðabótaskyldu. Hvaða áhrif gæti þetta haft á nýju bankana, hvert er í raun þeirra eignasafn og hverra er ábyrgðin?

Frá því í bankahruninu í október 2008 þá hefur forsendurbrestur hagkerfisins marg oft verið ræddur, fyrst hverra var ábyrgðin og síðan leiðir út úr vandanum, leiðir til þess að aðstoða  fyrirtæki og fjölskyldur í landinu.  Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa margsagt að ekki væru til fjármunir til þess að lækka höfuðstól lána fjölskylda vegna þess forsendubrests sem varð í hagkerfinu. En á sama tíma er innan ríkisstjórnarinnar og stjórnsýslunnar  legið á upplýsingum í heilt ár, upplýsingum sem gætu hafa komið fjölskyldum í landinu til góða og það látið óátalið að gengið er fram með hörku í innheimtu gagnvart lántakendum myntkörfulána. Slík vinnubrögð eru ekki þeim til sóma sem þau viðhafa.

Það er einnig umhugsunarvert hvernig ráðherrar í ríkisstjórn brugðust við niðurstöðum Hæstaréttar og þá sérstaklega viðskiptaráðherrann sem vissi þá af álitum um ólögmæti myntkörfulána, hvers vegna var engin viðbragðsáætlun til í ráðuneyti bankamála? Er það ásættanlegt miðað við það sem við vitum í dag? 

Einföld og skýr spurning  til viðskiptaráðherra þann 1. júlí 2009 hefði aldrei átt að kalla á þá umræðu sem fram hefur farið undanfarna daga, viðskiptaráðherra hefði átt að skýra frá þeim álitum sem fyrir lágu og ríkisstjórnin að bregðast við þeim, flóknar er það ekki.


Fyrir hvern vinnið þið?

Hæstiréttur Íslands felldi dóma þann 16. júní s.l. þess efnis að gengistrygging lána væri ólögleg og fólkið í landinu fagnaði. En ábúðarmiklir embættismenn í Seðlabankanum og hjá Fjármálaeftirlitinu í boði ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms stigu þá fram til aðstoðar þeim sem dæmdir voru. 

Aðstoðin er fólgin í tilmælum SÍ og FME um að víkja eigi samningsbundnum vöxtum til hliðar og og nota eigi óverðtryggða vexti Seðlabankans þar til dómstólar komast að niðurstöðu um vexti samninganna. Tilmæli sem ekki eru skuldbindandi og kannski ekki lögleg heldur.

Þetta er með ólíkindum. Eigum við næst von á því að einhverjar aðrar ríkisstofnanir í umboði ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms tjái sig um dóma  sem Hæstiréttur fellir og beini tilmælum til þeirra sem dæmdir hafa verið að hlýta ekki dómum fyrr en dómstólar hafi fjallað um önnur atriði sem ekki var kveðið á um í framkomnum dómi.

Fyrir hverja vinna embættismenn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og ekki síst ríkisstjórnin?

 


Einu sinni var.....

Þetta sagði Björn Bjarnason í grein árið 1991. 

„Við erum þegar farin að sjá til þess hóps manna, sem þykist betur í stakk búinn en aðrir til að segja afdráttarlaust fyrir um það, að íslenska þjóðin glati sjálfstæði sínu, menningu og tungu með frekara samstarfi við aðrar þjóðir, einkum Evrópuþjóðirnar. Þeir sem þannig tala hafa þann sið að gera sem minnst úr málefnalegum rökum viðmælenda sinna og láta eins og þau hnígi öll að því að þurrka íslensku þjóðina út úr samfélagi þjóðanna. Hræðsluáróður af þessu tagi er alls ekki nýr í íslenskum stjórnmála­umræðum. Kommúnistar héldu honum á loft um árabil í umræðum um varnir þjóðarinnar.“   „Þótt menn hafi ekki komist til botns í máli og geri ekki mikið meira en gára á því yfirborðið, stofna þeir samtök gegn málefninu. Er það til marks um einlægan vilja til málefnalegra umræðna?

Evrópumálin voru á dagskrá landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 1989.  Í skýrslu Aldamótanefndar, hverrar Davíð Oddsson var formaður, segir m.a. „Hugsanlega verður þó skynsamlegast að óska beinlínis eftir viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið, þótt menn séu um leið reiðubúnir að láta inngöngu ráðast af því, hvort þau skilyrði, sem henni kunna að fylgja, þyki aðgengileg eða ekki. Verði sú niðurstaðan, að þau séu óaðgengileg talin, hafa menn heldur engar brýr brotið að baki sér. Og þrátt fyrir allt er líklegt að smæð okkar verði okkur styrkur ásamt með því að við erum að véla við bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu og margar hefðbundnar vinaþjóðir, þar sem við njótum trausts.Það er því óheppilegt að borið hefur á því, að við séum sjálfir að búa okkur til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar með að veikja okkar eigin samningsstöðu er við mætum með sjálfskapaða annmarka til viðræðna við Evrópubandalagið.Við megum síst af öllu ganga að þessu viðfangsefni með þrá um forna innilokun og einangrun, alteknir af ótta og kjarkleysi. Við verðum að sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd. Til slíkra viðræðna hljótum við að ganga sannfærðir um það að reyna að ná fram hinu besta, en jafnframt tilbúnir til þess að hverfa frá þeirri leiðinni, ef niðurstaðan er ekki þolanleg.“ 

Í mars 2009 sagði núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins„En til lengri tíma finnst mér ólíklegt, að við getum aukið stöðugleikann með krónunni. Þess vegna hef ég verið talsmaður þess að við tökum afstöðu til Evrópusambandsaðildar á komandi árum.  Í pólitísku og peningamálalegu samhengi tel ég engan valkost jafn sterkan eins og evran með ESB-aðild. “ 

Einu sinni var …...

 

Ábyrgðin er mín.

Ég hef ákveðið að eyða af bloggsíðu minni færslunni "Burt með duglausar bleyður". Ástæður eru einfaldlega þær að það er nokkuð ljóst á því sem þar hefur birst að níð er ekki aðeins stundað af nafnlausum bloggurum heldur einnig undir nafni. Ég hef andstyggð á slíkri iðju og þess vegna eyði ég þessum færslum.

Ábyrgðin er mín á sama hátt og ég ber ábyrgð á mínum skoðunum.

 


Ekki í lagi !

Töluvert hefur verið rætt um framkomu þingmanna í þingsal, orðaval í ræðum og andsvörum og er ekki skrýtið. Ég vil taka það fram í upphafi að ég sem þingmaður er að sjálfsögðu ekki undanskilin í þessari umræðu og hefði stundum þurft að gæta betur að framkomu og orðavali í ræðum mínum og andsvörum, jafnvel sleppa því að fara í andsvör. En umræðan er þörf og til þess fallin að bregðast þarf við og lagfæra það sem miður hefur farið.

Í þingsal á þessu sumarþingi hefur að mínu mati gætt mikils óróa, hávær frammíköll eru tíð, jafnvel samtöl milli þingmanns í ræðustól og þingmanns úr sal hafa átt sér stað, sérstakar myndlíkingar og leikræn tjáning til áherslu orða og fleira mætti nefna sem er okkur þingmönnum ekki til sóma. Það afsakar ekki framkomu okkar þingmanna að langt er liðið á sumar, málin mikilvæg, ágreiningur mikill, álag töluvert og meira á suma þingmenn en aðra. Við þurfum að fara einhvern milliveg frá því sem nú er það er algerlega ljóst, því ekki viljum við hafa umræðuna í þinginu algerlega litlausa og steypa alla þingmenn í sama mót.

Ég hef sagt að sem einn af varaforsetum þingsins muni ég taka málið upp í forsætisnefnd þar er rétti vettvangurinn því þingforsetar geta sem slíkir haft áhrif á braginn í þingsalnum.


Fáranlegt kerfi!

Hvað er í gangi? Landspítalinn og Sjúkratryggingastofnun eru ríkisstofnanir og báðar á fjárlögum  íslenska ríkisins. Nú bregður svo við að sjúklingur þarf á aðgerð að halda sem hægt er gera á LSH en þar er ekki mögulegt að fjármagna aðgerðina vegna sparnaðar svo sjúklingurinn er sendur úr landi og önnur ríkisstofnun greiðir fyrir og það kostar töluvert meira en ef aðgerðin hefði verið gerð á LSH.  Við eigum frábært fagfólk, skurðstofur og tæki en það er ekki nýtt heldur greitt úr sama ríkisvasa fyrir aðgerð í öðru landi.

ER ekki allt í lagi í þessu kerfi okkar? Af hverju greiddi þá Sjúkratryggingastofnun ekki LSH fyrir aðgerðina og nýtti íslenska fagfólkið, sparaði peninga fyrir ríkið og ekki síður tíma fyrir umræddan sjúkling.  

Það er nokkuð ljóst af þessu dæmi að hér þarf að taka rækilega til.


Kyrrsetning eigna vegna skattalagabrota

Þingfundur stóð í tæpan einn og hálfan tíma í dag og þar var lagt fram frumvarp sem m.a. gerir ráð fyrir að hægt verði að kyrrsetja eignir ef um hugsanlegt skattalagabrot sé að ræða. Það er meira en sjálfsagt að ræða það því æði mörg dæmi virðast hafa komið fram um undanskot eða tilfærslur eigna í tengslum við bankahrunið.  

Jafnframt kom fram í  umræðunni að ef til vill mætti tengja þetta frumvarp gjaldþrotalögum og ef svo væri  þá er hugsanlega hægt að rifta gjörningum eins og t.d ef eignir hafa verið færðar á nafn annars aðila.  Ef svo er þá er frumvarpið flóknar en við fyrstu sýn og verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þess í efnahags - og skattanefnd.

 

 


Jáið mitt.

Ákvað eftir nokkra daga umhugsun að blogga aðeins um jáið mitt. Það eru skiptar skoðanir í Sjálfstæðisflokknum um aðildarviðræður við ESB en ég hef alltaf skipað mér með þeim sem eru hlynntir slíkum viðræðum og sagt þá skoðun mín svo hún ætti engum að koma á óvart.

Tvær breytingartillögur Bjarna Bendiktssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, annars vegar um tvöfalda atkvæðagreiðslu og hins vegar um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur voru felldar en þær báðar studdi þingflokkurinn allur. 

Þegar kom að atkvæðagreiðslu um breytta þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarviðræður við ESB þá greiddi ég henni atkvæði mitt og gerði grein fyrir því, Þorgerður Katrín sat hjá og gerði grein fyrir því en aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sögðu nei og sumir gerður grein fyrir því en aðrir ekki.

Ýmsir hafa ekki geta unað því að einhugur var ekki í þingflokknum og látið í ljós skoðanir sínar, hver á sinn hátt. En þeir eru enn fleiri sem hafa sagt að í þessari atkvæðagreiðslu hafi endurspeglast styrkur Sjálfstæðisflokksins, þar sé rúm fyrir fólk með sjálfstæðar skoðanir.

Sjálfstæðisflokkurinn er breiðfylking fólks sem hefur grunngildin sjálfstæðisstefnunnar að leiðarljósi en innan okkar raða rúmast ólíkar skoðanir á ýmsum málum. Það er og verður styrkur okkar sjálfstæðismanna.

 


Hagsmunir!

Í Fréttablaðinu í dag ræðir Eiríkur Bergmann um  ICESAVE samninginn. Hann reifar þar hugmynd um þriðju leiðina sem ýmsir aðrir hafa nefnt og er virkilega þess virði að þingmenn ræði. En hann er ekki ýkja bjartsýnn á að hún gangi eftir og af hverju ekki? Jú, hann gefur sér forsendurnar og þær eru: " Stjórnarliðar vilja standa við þann samning sem stjórnvöld hafa þegar gert við Breta og Hollendinga en stjórnarandstaðan vill fyrir alla muni fella samninginn og koma þannig pólitísku höggi á ríkisstjórnina."

Það dapurt þegar fulltrúi " akademíunnar" gefur sér slíkar forsendur og raðar þingmönnum í dilka með þessum hætti. Það getur ekki verið og ég neita að trúa því að þingmenn almennt  beri ekki hagsmuni þjóðarinnar ofar eigin pólitískum hagsmunum. Mínir pólitísku hagsmunir eru engir í þessu máli en mér finnst þessi samningur óásættanlegur og ég get ekki skilið að íslenska þjóðin ein þurfi með þessum hætti að gjalda fyrir brogað regluverk Evrópusambandsins. Það getur ekki gengið að sá ótti annarra Evrópuþjóða, að það myndist vantrú á sjálft kerfið og hugsanlegt áhlaup á alla banka í Evrópu, eigi að knésetja íslenska þjóð.


Þetta er ekki hægt!

Ég er ekki hagfræði- eða viðskiptafræðimenntuð en mér finnst vera einhver misskilningur á ferðinni þegar rætt er um að eignir Landsbankans sem ganga eigi upp í skuldir -  fari allar til að mæta ICESAVE samningnum sem nú liggur fyrir þinginu. 

Skilanefnd Landsbankans segir forgangskröfur vera um 1.350 milljarðar. Eignir bankans eru samkvæmt nýjasta mati um 1.100 milljarða. Af forgangskröfum eru kröfurnar sem íslenska þjóðin tekur á sig, verði samningurinn samþykktur, 730 milljarðar. Það þýðir að einungis rúmlega helmingur af því sem innheimtist af eignum Landsbankans fer til greiðslu ICESAVE.

Skilanefnd Landsbankans gerir ráð fyrir að 83% af eignunum endurheimtist. Það eru rúmlega 900 milljarðar og af því fara þá tæplega 500 milljarðar til greiðslu ICESAVE. Þá standa út af borðinu 230 milljarðar auk VAXTA sem verða á bilinu 200 - 300 milljarðar að auki. Það eru samtals 430 - 530 milljarðar!

Getur íslenskt þjóðarbú greitt þennan samning eftir 7 ár?


Markmið og leiðir

Steingrímur J. talaði fyrir frumvarpi um ríkisfjármálin á föstudaginn. Það kom á daginn sem maður óttaðist að fyrst og síðast er horft til skattahækkana en síður til  niðurskurðar í ríkisfjármálum. 

Skattahækkanir verða á þessu ári um 130 þúsund krónur að meðaltali á hverja fjölskyldu og 270 þúsund á næsta ári. Hækkanir á virðisaukaskatti, tekjuskatti og launatengdum gjöldum  eiga að skila rúmum 10,4 milljörðum króna í ríkissjóð á þessu ári og 28 milljörðum á árinu 2010.

Ég hefði kosið að ríkisstjórnin sýndi meiri djörfung í niðurskurði og aðhaldi í ríkisrekstri en svo var ekki. Það er nokkuð ljóst að ríkisstjórnir undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafa leyft ríkisbákninu að blása út og þrátt fyrir að  þeim ríkisstjórnum hafi tekist að reka ríkissjóð með hagnaði síðustu árin þá réttlætir það ekki útþenslu ríkisbáknsins. En ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur heldur ekki kjark til niðurskurðar, það þýðir að við náum mun seinna tökum á þeim hallarekstri sem við blasir svo einfalt er það.

Hinn frjálsi atvinnumarkaður hefur þurft að fara í gagngeran niðurskurð, taka margar mjög sársaukafullar ákvarðanir, stytta vinnutíma, minnka stafshlutfall en hinn opinberi geiri hefur sloppið að stórum hluta. En það þarf að lækka ríkisútgjöld og í samvinnu við stafsmenn og stofnanir þarf að segja hvar og hvernig. Starfsmenn ríkisins hvar sem þeir starfa sem og notendur þeirra þjónustu sem ríkið veitir, allir eiga rétt á að vita hvað er framundan.

 Okkur greinir á um leiðir en markmiðið er það sama.


Sértækar aðgerðir strax.

Hún var sorgleg fréttin um húseigandann á Álftanesi sem eyðilagði heimili fjölskyldunnar. Ég hélt að það hefðu verið gefin fyrirheit um að fjölskyldur í landinu yrðu ekki settar út á guð og gaddinn og bönkum verið settar leiðbeinandi reglur þar að lútandi. Það hefur verið fullyrt mörgum sinnum af forystumönnum núverandi ríkisstjórnar að aðgerðir hennar væru fyrir fjölskyldur í landinu og þær kæmu fjölskyldum til góða. En svo virðist svo sannarlega ekki vera.

Það er alveg kristaltært að það verður að grípa til sértækra aðgerða fyrir æði margar fjölskyldur í landinu til þess að koma í veg fyrir jafn örvæntingarfullar gjörðir og við nú höfum orðið vitni að. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem segist vera ríkisstjórn velferðar verður að breyta um takt í húsnæðislánamálum og skoða með opnum huga leiðir sem t.d aðrir stjórnmálaflokkar og Hagsmunasamtök heimilanna hafa kynnt.

Það er ekki hægt að þverskallast við lengur, fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og hana verður að vernda. Grípum til sértækra aðgerða áður en lánasöfnin verða metin og flutt úr gömlu föllnu bönkunum yfir í nýja ríkisbanka.


Er þetta ef til vill rétt?

Björn Þorri Viktorsson lögmaður sendi þingmönnum og ráðherrum afar athyglisvert bréf um stöðu myntkörfulána við yfirfærslu eigna gömlu bankanna til hinna nýju ríkisbanka. Þar reifar hann álit sitt  og segir m.a. að miklu skipti að vel takist til við mat á lánasöfnum gömlu bankanna til að koma megi í veg fyrir stórfellt tjón í hinum nýju ríkisbönkum.

BÞV telur að  margir samningar um hin svokölluðu myntkörfulán séu í raun hrein krónulán en með erlendu myntviðmiði. Höfuðstólsfjárhæð er tilgreind í íslenskum krónum og í mörgum tilfellum komi ekki fram nein tiltekin höfuðstólsfjárhæð hinna erlendu mynta heldur einungis hlutfall myntviðmiðs til verðtryggingar, lánin eru greidd út í íslenskum krónum, greiðsluáætlanir miðast við íslenskar krónur og lánin eru endurgreidd með íslenskum krónum.

BÞV telur að stór hluti lánasamninga  sem tengdur er erlendu myntviðmiði verði dæmdur ólögmætur og einnig verulegar líkur til þess að forsendur verðtryggða samninga verði ekki taldar standast miðað við núverandi forsendur.

BÞV telur mikilvægt að skorið verði úr í þessu efni áður en yfirfærsla á milli gömlu föllnu bankanna og nýju ríkisbankanna eigi sér stað.

Mikið hefur verið rætt um leiðréttingu lánasamninga á liðnum mánuðum og því oftar en ekki haldið fram að ríkissjóður hafi ekki efni á slíkum aðgerðum en ef dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að ályktanir BÞV séu réttar og yfirfærslan hefur farið fram þá fyrst er ljóst að  tjónið mun lenda af fullum þunga á ríkissjóði.

Er ekki rétt að hraða þessu í gegnum dómskerfið og fá úr þessu skorið?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband