Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þetta er ekki hægt!
7.7.2009 | 00:08
Ég er ekki hagfræði- eða viðskiptafræðimenntuð en mér finnst vera einhver misskilningur á ferðinni þegar rætt er um að eignir Landsbankans sem ganga eigi upp í skuldir - fari allar til að mæta ICESAVE samningnum sem nú liggur fyrir þinginu.
Skilanefnd Landsbankans segir forgangskröfur vera um 1.350 milljarðar. Eignir bankans eru samkvæmt nýjasta mati um 1.100 milljarða. Af forgangskröfum eru kröfurnar sem íslenska þjóðin tekur á sig, verði samningurinn samþykktur, 730 milljarðar. Það þýðir að einungis rúmlega helmingur af því sem innheimtist af eignum Landsbankans fer til greiðslu ICESAVE.
Skilanefnd Landsbankans gerir ráð fyrir að 83% af eignunum endurheimtist. Það eru rúmlega 900 milljarðar og af því fara þá tæplega 500 milljarðar til greiðslu ICESAVE. Þá standa út af borðinu 230 milljarðar auk VAXTA sem verða á bilinu 200 - 300 milljarðar að auki. Það eru samtals 430 - 530 milljarðar!
Getur íslenskt þjóðarbú greitt þennan samning eftir 7 ár?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:12 | Slóð | Facebook
Markmið og leiðir
21.6.2009 | 22:07
Steingrímur J. talaði fyrir frumvarpi um ríkisfjármálin á föstudaginn. Það kom á daginn sem maður óttaðist að fyrst og síðast er horft til skattahækkana en síður til niðurskurðar í ríkisfjármálum.
Skattahækkanir verða á þessu ári um 130 þúsund krónur að meðaltali á hverja fjölskyldu og 270 þúsund á næsta ári. Hækkanir á virðisaukaskatti, tekjuskatti og launatengdum gjöldum eiga að skila rúmum 10,4 milljörðum króna í ríkissjóð á þessu ári og 28 milljörðum á árinu 2010.
Ég hefði kosið að ríkisstjórnin sýndi meiri djörfung í niðurskurði og aðhaldi í ríkisrekstri en svo var ekki. Það er nokkuð ljóst að ríkisstjórnir undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafa leyft ríkisbákninu að blása út og þrátt fyrir að þeim ríkisstjórnum hafi tekist að reka ríkissjóð með hagnaði síðustu árin þá réttlætir það ekki útþenslu ríkisbáknsins. En ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur heldur ekki kjark til niðurskurðar, það þýðir að við náum mun seinna tökum á þeim hallarekstri sem við blasir svo einfalt er það.
Hinn frjálsi atvinnumarkaður hefur þurft að fara í gagngeran niðurskurð, taka margar mjög sársaukafullar ákvarðanir, stytta vinnutíma, minnka stafshlutfall en hinn opinberi geiri hefur sloppið að stórum hluta. En það þarf að lækka ríkisútgjöld og í samvinnu við stafsmenn og stofnanir þarf að segja hvar og hvernig. Starfsmenn ríkisins hvar sem þeir starfa sem og notendur þeirra þjónustu sem ríkið veitir, allir eiga rétt á að vita hvað er framundan.
Okkur greinir á um leiðir en markmiðið er það sama.
Sértækar aðgerðir strax.
18.6.2009 | 16:23
Hún var sorgleg fréttin um húseigandann á Álftanesi sem eyðilagði heimili fjölskyldunnar. Ég hélt að það hefðu verið gefin fyrirheit um að fjölskyldur í landinu yrðu ekki settar út á guð og gaddinn og bönkum verið settar leiðbeinandi reglur þar að lútandi. Það hefur verið fullyrt mörgum sinnum af forystumönnum núverandi ríkisstjórnar að aðgerðir hennar væru fyrir fjölskyldur í landinu og þær kæmu fjölskyldum til góða. En svo virðist svo sannarlega ekki vera.
Það er alveg kristaltært að það verður að grípa til sértækra aðgerða fyrir æði margar fjölskyldur í landinu til þess að koma í veg fyrir jafn örvæntingarfullar gjörðir og við nú höfum orðið vitni að. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem segist vera ríkisstjórn velferðar verður að breyta um takt í húsnæðislánamálum og skoða með opnum huga leiðir sem t.d aðrir stjórnmálaflokkar og Hagsmunasamtök heimilanna hafa kynnt.
Það er ekki hægt að þverskallast við lengur, fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og hana verður að vernda. Grípum til sértækra aðgerða áður en lánasöfnin verða metin og flutt úr gömlu föllnu bönkunum yfir í nýja ríkisbanka.
Er þetta ef til vill rétt?
2.6.2009 | 01:41
Björn Þorri Viktorsson lögmaður sendi þingmönnum og ráðherrum afar athyglisvert bréf um stöðu myntkörfulána við yfirfærslu eigna gömlu bankanna til hinna nýju ríkisbanka. Þar reifar hann álit sitt og segir m.a. að miklu skipti að vel takist til við mat á lánasöfnum gömlu bankanna til að koma megi í veg fyrir stórfellt tjón í hinum nýju ríkisbönkum.
BÞV telur að margir samningar um hin svokölluðu myntkörfulán séu í raun hrein krónulán en með erlendu myntviðmiði. Höfuðstólsfjárhæð er tilgreind í íslenskum krónum og í mörgum tilfellum komi ekki fram nein tiltekin höfuðstólsfjárhæð hinna erlendu mynta heldur einungis hlutfall myntviðmiðs til verðtryggingar, lánin eru greidd út í íslenskum krónum, greiðsluáætlanir miðast við íslenskar krónur og lánin eru endurgreidd með íslenskum krónum.
BÞV telur að stór hluti lánasamninga sem tengdur er erlendu myntviðmiði verði dæmdur ólögmætur og einnig verulegar líkur til þess að forsendur verðtryggða samninga verði ekki taldar standast miðað við núverandi forsendur.
BÞV telur mikilvægt að skorið verði úr í þessu efni áður en yfirfærsla á milli gömlu föllnu bankanna og nýju ríkisbankanna eigi sér stað.
Mikið hefur verið rætt um leiðréttingu lánasamninga á liðnum mánuðum og því oftar en ekki haldið fram að ríkissjóður hafi ekki efni á slíkum aðgerðum en ef dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að ályktanir BÞV séu réttar og yfirfærslan hefur farið fram þá fyrst er ljóst að tjónið mun lenda af fullum þunga á ríkissjóði.
Er ekki rétt að hraða þessu í gegnum dómskerfið og fá úr þessu skorið?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:55 | Slóð | Facebook
Samræmum tillögurnar tvær!
28.5.2009 | 16:01
Tvær þingsályktunartillögur um aðildarviðræður og um undirbúning mögulegra aðildarviðræðna að Evrópusambandinu eru komnar fram og önnur þeirra er rædd í þinginu í dag. Tillögurnar falla í sömu átt en mér þykir tillaga Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar hafa meira kjöt á beinunum sem vegvísir um markmið og leiðir.
Það væri, að mínu mati, skynsamleg ráðstöfun flutningsmanna þessara tillagna að fallast á að skoða þessar tvær tillögur saman. Það myndi í fyrsta lagi spara tíma og þar með gæfist meiri tími til þess að ræða þau mál sem brenna á þjóðinni í dag og þarfnast skjótra úrlausna. Í öðru lagi gæfist þá tími til að samræma þessar tvær tillögur, búa til vegvísi að þeim leiðum sem fara á, setja skýr markmið og skilyrði okkar þjóðar, kalla til hagsmunaðila og allt það sem fylgir jafn viðamiklu máli og við ræðum hér og nú.
Nú er tækifæri til samvinnu stjórnarsinna og stjórnarandsöðu
Mikil vonbrigði
26.5.2009 | 20:59
Það var dapurt að hlusta á forsætis - og fjármálaráðherra í gær. JS og SJS sögðu þjóðinni enn og aftur það sem hún veit; efnahagsvandinn er gífurlegur, framundan eru erfið verkefni sem þarf að takast á við. Þetta veit þjóðin og hefur vitað síðan í október en nú eru maílok og enn er verið að segja sömu hlutina. Það á gera þær kröfur til ríkisstjórna að þær taki á þeim vanda sem við blasir, við getum verið misánægð með það sem gert er en nú eru flestir óánægðir vegna þess hve lítið er gert og hve litlu það hefur skilað.
Við sitjum enn uppi með að efnahagsreikingur ríkisbankanna þriggja er óklár, gjaldeyrisójafnvægi ógnar og þetta þýðir einfaldlega að súrefni til atvinnulífsins og heimila er ekki fyrir hendi. Upplýsingar um hvað ríkisstjórnin hyggst gera í ríkisfjármálum sem og öðrum málum á næstu vikum komu ekki fram og verkefnalistinn segir okkur ekkert. Þetta vinnulag er óásættanlegt meira að segja af hálfu ríkisstjórnar sem Jóhanna Sigurðardóttir stýrir.
JS sagði að hún stæði nú frammi fyrir erfiðustu ákvörðunum á stjórnmálaferli sínum! hún er líklega ekki eini stjórnmálamaðurinn sem það gerir um þessar mundir. En vandi JS er að vísu tvíþættur því JS hefur fram til þessa verið stjórnmálamaður útgjalda fyrir þá hópa sem hún hefur ötullega barist fyrir en er nú í forsvari ríkisstjórnar sem þarf að fara í gagngera uppstokkun ríkisfjármála sem mun hafa í för með sér sársaukafullar ákvarðanir hafi ríkisstjórnin þann kjark sem nauðsynlegur er íslensku samfélagi til þess að við getum hafið uppbyggingu á nýjan leik.
SJS er sá stjórnmálamaður, að minnsta kosti í sínu " fyrra " stjórnmálalífi sem hvað harðast hefur gagnrýnt ríkisstjórnir og einstaka ráðherra fyrir aðgerðarleysi en virðist sjálfur ekki ráða við þann vanda sem við blasir en talar um hann oft og iðulega. Hann hefur síðan 1. febrúar borið ábyrgð á fjármálum íslenska ríkisins en hvernig hefur fjárlögum ársins 2009 verið fylgt eftir? Upplýsingar liggja ekki á lausu þrátt fyrir ítrekuð loforð um slíkt. Nú eru liðnir tæpir fjóri mánuðir þar sem VG og Sf hafa setið saman í ríkisstjórn og ég spyr hefur verið unnið samkvæmt þeim hugmyndum sem lágu fyrir um hagræðingu, samþættingu og niðurskurð skv. fjárlögum ársins 2009 eða bíður það seinni hluta ársins og kemur þá að meiri þunga en ella hefði þurft?
Í pólitík greinir menn á um leiðir en kjarkleysi og ákvarðanafælni er óviðunandi.
Skýrsla forsætisráðherra vekur hún von eða vonbrigði!
24.5.2009 | 23:12
Forsætisráðherra mun á morgun gefa munnlega skýrslu um efnahagsmál. Ég vona svo sannarlega að JS tali í lausnum fyrir fjölskyldur og fyrirtækin í landinu, lausnum sem eru sýnilegar nú á næstu vikum og misserum en ekki með því að nefna aðildarviðræður við ESB. Við getum ekki beðið lengur og þolinmæði fólks er á þrotum, það sást vel á fundinum á Austurvelli í gær.
Þrátt fyrir að löggjafinn hafi sett margs konar lög, reglugerðir siglt í kjölfarið þá hefur það einfaldlega ekki skilað árangri og flestir finna það áþreifanlega á eigin skinni. Staða krónunnar er geigvænleg fyrir alla nema útflutningsaðila og það einfaldlega gengur ekki. Gjaldeyrisójafnvægi gerir það að verkum að ekki er hægt að klára efnahagsreikning bankanna. Þeir grípa síðan til þess að lækka innlánsvexti til þess að mæta öðrum kröfum.
Hvað forsætisráðherra segir í munnlegri skýrslu sinni um efnahagsmál gæti vakið von, við skulum bíða og sjá til!
Lýðræði þegar það hentar!
24.5.2009 | 16:52
Þegar kjörbréfanefnd skilaði nefndaráliti sínu þá skrifaði einn þingmaður, Margrét Tryggvadóttir, undir álitið með fyrirvara. Þannig var að kæra hafði komið fram og þar var þess krafist að kosingarnar þann 25. apríl s.l. yrðu dæmdar ómerkar vegna misvægi atkvæða milli kjördæma landsins. Þingmaðurinn MT gerði þann fyrirvara við merðferð kjörbréfanefndar að hún sé í megingatriðum samála kærunni og telji misvægi atkvæða brjóta á mannréttindum sínum sem kjósanda í Suðvesturkjördæmi (þar sem atkvæði að baki hverjum þingmanni eru tæplega 5000 en t.d. tæplega 3000 í Suðurkjördæmi). Ég tek undir með þingmanninum MT að sjálfsögðu ætti að gilda eitt atkvæði versus einn kjósandi.
Hins vegar varð ég fyrir vonbrigðum með þann sama þingmann þegar kom að kosningum í fastanefndir Alþingis því þá tóku allir þingmenn Borgarahreyfingarinnar þá ákvörðun að spyrða sig við stjórnarsinna og skekktu þar með lýðræðisleg úrslit kosninganna þann 25. apríl. Þeir skekktu úrslitin með þeim hætt að Sjálfstæðisflokkurinn missti þrjá nefndarmenn og Framsóknarflokkurinn 2.
Þetta kalla ég að nota lýðræðið þegar hentar og það hentar mér ekki.
Ef þetta gengur saman!
7.5.2009 | 22:46
" Ef þetta gengur saman þá er það um helgina" er haft eftir Atla Gíslasyni, þingmanni VG. Hvernig má skilja þessi orð þingmannsins í ljósi þess að 12 dagar eru liðnir frá kosningum og VG og Samfylkingin eru enn að koma sér saman um sáttmálann sem þeir létu í veðri vaka fyrir kosningar að ekkert mál væri að gera, samstarfið væri svo gott.
JS og SJS hafa sagt að verið sé að vinna á fullu í ráðuneytunum en hvað er verið að gera? Er verið að vinna að aðhaldi í rekstri og niðurskurði í takt við gildandi fjárlög 2009? Ef svo er þá berast þær upplýsingar ekki til þjóðarinnar. Ekki eru bankarnir komnir í gang, hjól atvinnulífsins snúast varla, skuldir heimila hækka og ASÍ forsetinn er farinn að hóta " ekki ríkisstjórninni". Stýrivextir lækkuðu í dag, þar kom smá glæta.
Nú reynir á JS og SJS, það er ljóst að hópar að baki þeim eru sundurleitir en ákafir í að ná sínu fram, tekst þeim að sameina ólík sjónarmið? Hvernig tekst þeim að höndla ASÍ forsetann og hans afgerandi afstöðu og skoðanir, það er eitthvað alveg nýtt og ærið verkefni fyrir þessa formenn í það minnsta.
Dagarnir líða, hver dagur, hver tími er dýrmætur og ekkert er að gert........ eitthvað á þessa leið hljómuðu þingmenn VG á Alþingi og í fjölmiðlum í desember og janúar? Þannig hljómaði líka fólkið sem stóð á Austurvelli og barði í búsáhöld. Nú er allt hljótt!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook
Ykkar tími er að renna út!
3.5.2009 | 22:54
Okkar tími er kominn sagði JS á kosningarnótt, nú er vika liðin og ekkert bólar á nýrri ríkisstjórn eða nýjum stjórnarsáttmála. Skipti það í raun mestu máli þann 25. apríl að Samfylkingin fékk flesta þingmenn kjörna en hvað svo, hverju hefur það skilað? Engu og það er alveg ljóst að tími fjölskyldna, heimila og fyrirtækja er ekki kominn! Þeirra tími líður og ekkert er að gert.
Hvað er að? Hvers vegna lítur nýr stjórnarsáttmáli ekki dagsins ljós? Er það virkilega að gerast sem fyrr að menn á þeim bænum geta ekki komið sér saman um grundvallaratriðin? Ekki að það komi sérstaklega á óvart en ég hélt að þeir væru komnir lengra í samkomulagsátt en raun ber vitni. Minnihlutastjórnin er ekki starfhæf á sama tíma og flokkarnir þjarka um nýja stjórnarsáttmála.
Er ESB að flækjast fyrir þarna eins og sums staðar annars staðar, hvað er að því að sækja um aðild með skilyrðum, sjá hvað kemur út úr því og leyfa þjóðinni að ráða örlögum sínum í slíkum kosningum eins og öllum öðrum kosningum.
Það er svo afar kúnstugt að hlusta á formenn VG og Samfylkingar tala um Alþingi eins og þeir gera og hvenær þeir ætli að kalla þingið saman! Ræður framkvæmdarvaldið yfir löggjafarvaldinu? Hvar er nú mikilvægi þrískiptingar valdsins, löggjafar-, dóms - og framkvæmdarvalds sem þessir aðilar hafa löngum talað um og gagnrýnt aðra fyrir að virða ekki. Sú skipting skiptir engu máli nú því um leið og menn komast í þá aðstöðu að ráða þá eru stóru orðin fljót að gleymast.
Ég sem þingmaður óska eftir því að Alþingi verði kallað saman strax og löggjafarvaldið verði virkt á þeim tímun sem nú eru og þar verði rædd fyrir opnum tjöldum málin sem brenna á þjóðinni nú eins og þau brunnu á þjóðinni í janúar og þá var tíminn að renna út, hvað þá nú. Alþingi setur lögin, framkvæmdarvaldið, ríkistjórnin, framkvæmir! Flóknar er það ekki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook