Hingað og ekki lengra

Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði í grein sem birtist í Morgunblaðinu 4. nóvember 2008 að ekki ríkti traust milli þjóðar, þings og Seðlabanka og sagði að því yrði að breyta: "Nú ríkir hvorki traust né trúnaður gagnvart seðlabankastjórum né bankaráði Seðlabankans og þess vegna ættu allir er þar sitja að víkja."

EFNAHAGSVANDINN er gífurlegur og vindur hratt upp á sig. Ástæður vandans eru margar og verður að rannsaka strax af þar til bærum fagaðilum. Hins vegar þarf nú að grípa til allra tiltækra ráða til að hjól atvinnulífsins snúist og koma í veg fyrir gríðarlegt atvinnuleysi. Ríkið verður að gefa skýr og afdráttarlaus svör til fyrirtækja um að þau njóti á þessum erfiðleikatímum rýmri lána - og greiðslukjara en áður. Jafnframt verður að veita einstaklingum og fjölskyldum í landinu rýmri greiðslukjör en áður og skoða þá bæði verðtryggð lán og gengistryggð. Við höfum sem þjóð ekki efni á öðru, hvorki siðferðislega né efnahagslega.

Samhliða verðum við ræða hvernig við komumst hjá slíkum kollsteypum í framtíðinni. Krónan og peningamálastefnan hafa beðið hnekki, eru rúnar trausti innanlands sem utan. Því þarf að endurskoða og gera úttekt á peningamálastefnunni og taka næstu skref. En hvert liggja þau? Við eigum tvo kosti, annars vegar að byggja krónuna upp á nýtt eða taka upp evru. Í dag er æði langsótt að ætla að byggja upp traust á krónunni til framtíðar litið. Alþjóðatengslum þarf að ná á ný og alþjóðleg viðskipti verða stunduð í framtíðinni og ég hygg að fáir hafi trú á krónunni sem framtíðargjaldmiðli í slíkum viðskiptum. Allar aðrar greinar í íslensku atvinnulífi verða einnig að geta vaxið og dafnað í umhverfi sem byggist á stöðugleika og hann er vart að finna í núverandi umhverfi. Við þurfum hreinskiptna umræðu um gjaldmiðilinn, nýjan gjaldmiðil og stöðu Íslands í samfélagi þjóða.

Traust og trúnaður ríkir ekki milli þings og þjóðar það er kristaltært. En þingmenn og sveitarstjórnarmenn sitja eða víkja, meirihluti hverfur og nýr er myndaður, þannig virkar lýðræðið og er það vel. Hins vegar verðum við þingmenn að endurskoða störf okkar og í ljósi atburða síðustu vikna vakna ýmsar spurningar. Hefði þurft að fara betur í gegnum áhrif tilskipana EES-samningsins á íslenskt samfélag? Uppfylltu frumvörp eingöngu lágmarkskröfur eða var gengið lengra en skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum gáfu tilefni til? Hefðu lög um eignarhald á fjölmiðlum og um eignarhald á bönkum getað breytt einhverju? Átti að breyta lögum um Seðlabanka Íslands? Ég er ekki í vafa um að klárlega hefði verið hægt að gera betur, öllu eftirliti, jafnt þinglegu sem öðru, var ábótavant.

Ég hef ætíð haft þá skoðun að fyrrverandi stjórnmálamenn ætti ekki að skipa í stjórnir ríkisfyrirtækja. Nú ríkir hvorki traust né trúnaður gagnvart seðlabankastjórum né bankaráði Seðlabankans og þess vegna ættu allir er þar sitja að víkja svo hægt verði að byggja upp traust og trúnað á ný og samhliða á að breyta lögum um Seðlabanka Íslands, stjórnskipulag bankans, stöðu og markmið.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur á síðustu 17 árum verið í ríkisstjórn og staðið með öðrum að mörgum framfarabreytingum. Íslenskt efnahagslíf hefur tekið stakkaskiptum, fyrirtæki verið stofnuð innanlands sem utan, bankageirinn blómstraði og við landsmenn tókum þátt í góðærinu. En annar veruleiki blasir við og nú ríkir reiði í garð Sjálfstæðisflokksins og forystumönnum hans er kennt um ófarir sem þjóðin hefur ratað í. Það er eðlilegt og við sjálfstæðismenn verðum að líta okkur nær, skoða frelsið og breytingaferli því tengt og sérlega eftirlitið sem brást. Enginn á að skorast undan því að endurmeta, læra af mistökum og gera betur. En grunngildi Sjálfstæðisflokksins eru nú sem fyrr gulls ígildi og um þau þarf að standa vörð.

Það er hins vegar afar sérkennilegt að svo virðist sem gömlu kommarnir hlakki yfir ástandinu og hrópi víða að nú sé kapítalisminn dauður og það sé vel. Þeirra skoðanir eru hættulegri efnahagskerfinu en kollsteypur. Ég vitna í orð dr. Jóns Daníelssonar er hann segir: „Stóra hættan er aftur á móti sú, að þeir sem eru á móti frjálsum markaði sem skipan efnahagsmála, muni notfæra sér tækifærið til þess að koma á þungbæru regluverki, sem mun takmarka eða valda langtímatjóni á efnahagsbata. Eina leiðin til þess að hafa sæmilega sterkt hagkerfi er að vera með sterkt og virkt markaðskerfi. Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir bólur og hrun er að búa í Norður-Kóreu eða Kúbu." Það er ískyggilegt að slíkar hugmyndir og skoðanir skuli fá brautargengi í núverandi efnahagsróti og þótt ég finni og skilji reiði fólks og sé sjálf öskureið vegna ákvarðana og ástandsins, trúi ég því ekki að íslensk þjóð vilji kalla yfir sig slík höft, boð og bönn alræðis forsjárhyggjunnar.

Við stöndum á alvarlegum tímamótum og þurfum að vinna okkur út úr þeim kollsteypum sem við og aðrar þjóðir tökum nú og ákveða hvaða skref verða stigin á næstu mánuðum og árum. Hvar viljum við vera í samfélagi þjóða og hvernig ætlum við að byggja upp traust og trúnað, annars vegar á milli þjóðarinnar innbyrðis og hins vegar á alþjóðavettvangi? Þessum spurningum verða allir að svara, ekki í ótta, kvíða og reiði heldur af yfirvegun.

Höfundur er þingmaður.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 4. nóvember 2008


Hagsmunatengsl þingflokks Vinstri grænna og BSRB?

Ragnheiður Ríkharðsdóttir skrifaði grein 13. september 2008 í tilefni af samþykkt laga um sjúkratryggingar: "Það hefði skorið á alla umræðu um óheppileg hagsmunatengsl þingflokks Vinstri grænna og BSRB."

FRUMVARP til laga um sjúkratryggingar sem heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram sl. vor varð að lögum á Alþingi miðvikudaginn 10. september og því fagna ég. Við þriðju umræðu lögðu tveir þingmenn Vinstri grænna í heilbrigðisnefnd þingsins, þær Þuríður Backman og Álfheiður Ingadóttir, fram nefndarálit og því fylgdu þrjú fylgiskjöl, erindi Göran Dahlberg frá Svíþjóð og Allyson M. Pollock frá Bretlandi sem og greinargerð Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors við HÍ. Þess ber að geta hér að fylgiskjölin öll voru ágætis lesning og þar var ýmsu hreyft sem vert er að skoða við innleiðingu nýrra laga. En það sem vakti mig sérstaklega til umhugsunar um fræðimennsku og vísindi eru viðhorf Allyson M. Pollack til skýrslu OECD er segir að óbreytt fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar og öldrun þjóðarinnar kalli í framtíðinni á aukin útgjöld heilbrigðisþjónustunnar. Viðhorf Allyson M. Pollock til skýrslu OECD kristallast í svörum hennar er hún segir m.a.:

*að skýrsla OECD sé ekki sérlega rökrétt og vel unnin

*að þetta með aldurssamsetningu samfélagsins og aukin útgjöld séu hrein og klár rökleysa að vera þurfi á varðbergi gagnvart því sem segir í skýrslu OECD

*að skoða þurfi hverjar heimildir eru og heimildarmenn að gögnin í skýrslu OECD séu hlægileg.

Satt best að segja er afar erfitt að flokka slík viðhorf undir fræðimennsku og vísindi og ber að líta á sem persónulegar skoðanir sérfræðingsins sem hafa allt annað vægi en fræðilegar rökstuddar fullyrðingar.

Það sem vekur enn fremur athygli er að BSRB kostaði komu þessara tveggja sérfræðinga hingað til lands sem og bæklingana tvo með erindunum þýddum yfir á íslensku og þar með fylgiskjöl þingmanna Vinstri grænna. Það er vissulega virðingarvert af hálfu BSRB að gefa félagsmönnum sínum tækifæri til að hlýða á og ræða við sérfræðinga og taka síðan afstöðu til frumvarpa er liggja fyrir Alþingi. En hefði þá ekki verið rétt að kalla til sérfræðinga með ólíka sýn til þess að gefa félagsmönnum BSRB enn betra tækifæri til að taka afstöðu til ólíkra sjónarmiða „óháðra" sérfræðinga og taka síðan afstöðu til frumvarpa er liggja fyrir Alþingi? Formaður BSRB Ögmundur Jónasson, sem jafnframt er formaður þingflokks Vinstri grænna, hefur nefnt í tengslum við komu þessara tveggja sérfræðinga BSRB og erinda þeirra að Verslunarráð/Viðskiptaráð hafi flutt inn og kostað fyrirlesara til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. En á þessu tvennu er reginmunur því BSRB eru opinber félagasamtök og í þau greiða opinberir starfsmenn sín félagsgjöld sem þeim ber samkvæmt lögum og geta ekki annað en félagsmenn Viðskiptaráðs eru þar að eigin ósk og geta farið úr þeim samtökum þegar þeim hentar. Þetta veit formaður BSRB og formaður þingflokks Vinstri grænna Ögmundur Jónasson mætavel en kýs að líta framhjá. Það hefði að mínu mati verið heppilegra fyrir þingflokk Vinstri grænna að kosta sjálfur komu þessara tveggja sérfræðinga og þýðingu erinda þeirra til þess að nýta sér síðan í pólitískri umræðu á Alþingi máli sínu til stuðnings. Það hefði skorið á alla umræðu um óheppileg hagsmunatengsl þingflokks Vinstri grænna og BSRB.

Höfundur er alþingismaður.

Grein birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 13. september, 2008


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband