Við berum pólitíska ábyrgð
5.3.2009 | 14:57
"NÚ ER það mikilvægara en nokkru sinni fyrr að Sjálfstæðisflokkurinn standi vörð um grunngildin því harkalega er sótt að þeirri lífsskoðun að athafna- og einstaklingsfrelsi skuli liggja þjóðskipulaginu til grundavallar."
NÚ ER það mikilvægara en nokkru sinni fyrr að Sjálfstæðisflokkurinn standi vörð um grunngildin því harkalega er sótt að þeirri lífsskoðun að athafna- og einstaklingsfrelsi skuli liggja þjóðskipulaginu til grundavallar. Í endurreisn íslensks samfélags verðum við að byggja á grunngildum okkar, fylgja mannúðlegri markaðshyggju samhliða öflugu fjölskyldu-, velferðar- og menntakerfi.
Forsenda kjörorðsins um stétt með stétt", sem gleymdist í hrunadansinum mikla, byggist á því að öllum sé tryggður jafn réttur til menntunar og starfa og skilyrði til að þroska og fá notið hæfileika sinna. Þess vegna skiptir mannauðurinn okkur mestu í þeirri uppbyggingu sem framundan er, stöndum vörð um grunngildin okkar, sjálfstæðismenn, og fáum fleiri til liðs við okkur því það mun skila þjóðinni árangri á öllum sviðum.
Þau skilaboð til fólksins í landinu að við, sjálfstæðismenn, berum ekki pólitíska ábyrgð eru röng. Það skiptir afar miklu máli að við gaumgæfum það sem miður fór í efnahagslífi þjóðarinnar, tökum ábyrgð á því sem er okkar, lærum af reynslunni því þannig munum við treysta inniviðina og öðlast trúverðugleika á ný. Kraftur okkar og áræðni í uppgjöri fortíðarinnar verður styrkur okkar í framtíðinni.
Ég hef vakið athygli á ójafnvægi á milli þings og framkvæmdavalds og tel að styrkja þurfi þingræðið og koma á valdajafnvægi þings og framkvæmdavalds. Endurskoðun stjórnaskrárinnar er brýn en um þá endurskoðun verður að ríkja sátt hjá þjóðinni, því stjórnarskráin er hennar en ekki fárra útvalinna. Við Íslendingar stöndum á tímamótum og þurfum að ákveða hvaða skref verða stigin á næstu mánuðum og árum. Hvar viljum við vera í samfélagi þjóða og hvernig ætlum við að byggja upp traust og trúnað, annars vegar á milli þjóðarinnar innbyrðis og hins vegar á alþjóðavettvangi? Ég býð fram krafta mína og áræðni í endurreisnarstarfi íslensks samfélags.
Höfundur er þingmaður og býður sig fram í 3ja sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 4. mars 2009.