Eru breytingar á stjórnarskrá kveðjugjöf til Valgerðar Sverrisdóttur?

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi og að baki þingflokki flokksins stendur stærri hluti þjóðarinnar en að baki nokkrum öðrum þingflokki á Alþingi. Þannig er það og hefur verið lengi. Skoðanakannanir dagsins í dag breyta engu þar um, þjóðin ræður í kosningum og þær verða næst þann 25. april og þar til þau úrslit liggja fyrir stendur fyrrnefnd staðreynd.

En aðrir þingflokkar, sem hver um sig hefur aldrei komist með tærnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hælana hvað varðar þingmannafjölda, þeir ákveða nú að valta yfir þingflokk Sjálfstæðisflokksins í frumvarpi til stjórnskipunarlaga og rjúfa þar með hefð um almenna samstöðu allra flokka. 1918 og 1959 voru gerðar breytingar á stjórnarskrá í andstöðu við Framsóknarflokkinn og þær breytingar snerust um kjördæmaskipan og kosningar og vörðuðu beint hagsmuni viðkomandi flokks. Slíku er ekki til að dreifa nú.

Hefðin um almenna samstöðu allra flokka er nú rofin og með því að naumur meirihluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stærsta stjórnamálaflokk landsins þá er verið að færa stjórnarskrána inn í hringiðu stjórnmálanna og það er með öllu ólíðandi. Þess má því vænta að næsti meirihluti, naumur eða ríflegur, geri þær breytingar sem honum hugnast á stjórnarskránni og með því háttarlagi sem nú er lagt upp með, geti gert stjórnarskrána að pólitísku plaggi. Þvílíkt óráð.

Stjórnarskráin á að vera hafin yfir pólitískar deilur á hverjum tíma en svo er ekki nú því miður. Þar að auki er málsmeðferð verulega ábótavant, hraðinn er mikill, skortur á samráði við fræðasamfélagið almennt, atvinnulífið og ýmsa aðra hagsmunaaðila. Jafnframt er þversögn fólgin í því að gera efnisbreytingar á stjórnarskrá og koma á sama tíma á fót stjórnlagaþingi. Hvað er það í raun sem ræður för?

Sagt er að valdið komi frá þjóðinni í kosningum, þjóðin hefur ekki talað síðan í þingkosningunum 2007 og þá veitti hún ekki 7 þingmönnum Framsóknarflokksins umboð til að setja afdráttarlaus skilyrði um eitt eða neitt. En sá þingflokkur með Valgerði Sverrisdóttur í broddi fylkingar, fer nú fram með offorsi í þessu máli, í krafti stuðnings síns við minnihluta ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Er þetta birtingarmynd lýðræðis þessara flokka? Öðru vísi mér áður brá eða eru breytingar á stjórnarskránni kannski kveðjugjöf til Valgerðar Sverrisdóttur sem nú hverfur af þingi eftir áralanga setu?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Kæra Ragnheiður - oft ert þú málefnaleg og skelegg kona!  Mér finnst þú skemma fyrir - með staðhæfingum um stærsta pólitíska aflið!  Þótt sjálfstæðisflokkur hafi verið stærstur fyrir 2 árum síðan - þá hefur of mikið vatn runnið til sjávar síðan þá.

Þetta er eins og að segja að ,,hér var nú stór, stór pollur - og þrátt fyrir 2ja ára þurrka og pollurinn sé ekki hér" þá verður pollurinn samt hér, a.m.k. þar til að næstu rigningu kemur!

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 2.4.2009 kl. 01:23

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Bíddu, bíddu, er ekki Sjálfstæðisflokkurinn búinn að missa forystuna í kapphlaupinu um kjósendur. Þjóðin er afar samstíga í kröfunni um Stjórnlagaþing og þá finnst mér að rúmlega tuttugu manns á Alþingi eigi ekki að þvælast svo fyrir lýðræðinu eins og við verðum vitni að um þessar mundir. Ég er í hópi þeirra sem standa að vefsíðunni www.nyttlydveldi.is

Hólmfríður Bjarnadóttir, 2.4.2009 kl. 03:35

3 identicon

Sæl, Ragnheiður.  Sem fyrrum sjálfstæðismanni harma ég mjög vegferð flokksins umliðin ár.   Afgerandi flokksræði ásamt óbilandi fylgispekt við hagsmunaaðila hefur hampað þeim sem engu vagga.  Þið hin hafið verið áhrifalítil og nýliðun máttlaus.   Þetta hefur gert flokk allra stétta að ónothæfu nátttrölli sem ekki bara glutraði frá sér kynstrum sóknarfæra heldur færði þjóðina rakleitt inn á veg ósjálfstæðis.   Sá vegur endar á evrópusambandsaðild og verði hún að veruleika er það vegna óstjórnar sjálfstæðisflokksins.   Vona flokksins vegna að hann fái næði til endurskoðunar eftir vorkosningarnar og komi ákveðinn til leiks að henni lokinni.   Sjálfstæðisflokkurinn á sér glæsta sögu en hún verður trauðla mikið lengri án rækilegrar naflaskoðunar.   Kveðja og gangi þér vel í endurreisnarstarfinu, LÁ  

lydur arnason (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 05:03

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Staðreyndin er sú að meirihluti er á Alþingi fyrir þessum breytingum. Þær hafa líka breiða skírskotun til vilja almennings um lýðræðislegar breytingar.

Þannig að tillitsemi við eitthvað fyrrverandi stórveldi í íslenskri pólitík á ekki að stöðva málið.

Að leggja sitt af mörkum til málefnalegrar umræðu um stjórnarskrár-breytingarnar færi betur en eyða orku í að skola þeim út af borðinu.

Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 2.4.2009 kl. 08:53

5 identicon

Heil og sæl Ragnheiður.

Ég er ansi hræddur um að sá hluti þjóðarinnar sem stóð að baki þingmönnum Sjálfsstæðisflokksins, ég þar á meðal, sé ekki sá sami í dag og er e.t.v. allt i lagi fyrir ykkur að hugsa út í það. Mér finnst einnig að Sjálfstæðismenn hafi sýnt ansi mikinn sofandahátt varðandi stjórnarskrármálið því þið eruð búnir að hafa meirihluta á þingi s.l. 17 ár og haft nægan tíma til að taka á málinu, en hinsvegar valið að gera ekki neitt í því. Nú rísið þið svo upp á afturlappirnar og rekið upp harmakvein loks þegar tekið er á þessu mikilvæga máli sem þjóðin kallar eftir.

Haraldur Aðalbjörn Haraldsson (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 10:41

6 identicon

Heil og sæl öll

'Eg verð að taka það fram að ég svo sannarlega hlynnt breytingum á stjórnarskránni og tel nauðsynlegt að fara í þær en mér hugnast ekki aðferðafræðin.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 11:47

7 Smámynd: Einhver Ágúst

Af því að þú ert ekki sjálf að ákveða það? Hvaða væl er þetta? Svona man ég nú ekki eftir þér sem skólastjóra.

Hvað við aðferðarfræðina er að angraa þig? Er það ekki bara gamla flokksræðið sem nú talar og er komin með þig sem málpípu? Það þykir mér undarlegt.

Einhver Ágúst, 2.4.2009 kl. 15:34

8 Smámynd: Helga Sigrún Harðardóttir

Ragnheiður. Þú veist betur. Væri ekki lag að sýna þjóðinni málefnalega vinnu í þessu máli og taka þátt í umræðunni með eðlilegum hætti í stað þess að varpa fram svona hæpnum smjörklípum að ekki sé talað um hallærisganginn sem þingflokkur sjálfstæðismanna hefur sýnt í þinginu í gær og í dag með söng og öðrum skemmtiatriðum. Ég ber virðingu fyrir þér og þínum skoðunum og mér líkar vel að vinna með þér af því þú ert yfirleitt málefnaleg. Þetta fellur hins vegar ekki undir það.

Helga Sigrún Harðardóttir, 2.4.2009 kl. 17:28

9 identicon

Ert þú virkilega að hengja þig á gamlar hefðir ? Þegar það hefur aldrei nokkurn tímann verið eins þarft eins og nú að breyta þessu gamla danska plaggi.Ég hef algjörlega misreiknað þig, já nú nú er ég viss um að flokksræðið er eitthvað að plaga þig það er einhver N-Kóreu stíll yfir þessu. Einhvern veginn hélt ég að þú værir "sjálfstæðar" enn þetta.

Já hverjir er núna " fúlir á móti " ?

HG (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 17:39

10 Smámynd: Þorsteinn Egilson

Sæl.
Hugmyndin um stjórnlagaþing er að mörgu leyti góð, og trúlega því betri sem hún hefur elzt. Aðrar breytingar sem um er að ræða hafa, að því er virðist, einnig verið á dagskrá xD.

Það er auðvitað þannig að allar breytingar á stjórnarskrá þarf að gaumgæfa vel. Þrátt fyrir það er ekki unnt að sjá fram um alla hluti eins og marg hefur sannazt og þótt eitthvað af þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru í dag standist ekki allar tímans tönn þá verða þær tæplega verri en svo að ekki megi bæta þær síðar.

Þó stjórnarskráin sé ákveðin grundavallarskinna okkar samfélags þá finnst mér að hún þurfi að vera "lifandi plagg" í þeim skilningi að hún fái þróazt samhliða okkar þjóðfélagi. Á það hefur svo sannarlega skort og það skýtur skökku við að fulltrúar stjórnmálaflokks sem kennir sig við lýðræði og frelsi einstaklingsins til athafna og framfara skuli ekki í meira mæli feta þá braut. Pólitísk keppni snýst oft um orðalag. Breytinga er þörf. Staðan í dag er alvarlegri en svo að þjark og þref um smamuni megi taka svo stóran toll af ykkar orku. Það sést að það rósturskeið sem nú líður tekur sinn toll. Álagið á marga er gífurlegt og t.d. brá mér við að sjá ykkar glæsilega varaformann í kvöldfréttum sjónvarps, tekin og föl.

Einhendið ykkur í það sem  skiptir máli. Held að við sjáum öll ljósið handan víkur. Hjálpumst að við að finna leið.

Kveðja,

Þorsteinn Egilson, 2.4.2009 kl. 19:57

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sammála Ragnheiði. Ekkert er hættulegra en að færa meira vald til fólksins. Og ef einhverjum finnst þetta vafasöm ályktun þá er í það minnsta varhugavert að sú ákvörðun sé tekin nema Sjálfstæðisflokkurinn sé sannfærður um að skaði hans verði sem minnstur ef hann kemst til valda á ný.

En án gamans: Hvern fjandann eru pólitíkusar á Alþingi að þenja sig um stjórnlagaþing? Stjórnlagaþing á að skipa án afskipta Alþingis vegna þess að því er beinlínis ætlað að breyta stjórnskipan okkar til þess vegar sem þjóðin sjálf samþykkir. Alþingi á ekki að skipta sér af stjórnlagaþingi með öðru móti en því að tryggja fulltrúum þess aðgang að sérfræðiþjónustu.

Búsáhaldabyltingin var uppreisn gegn "ofríki lýðræðisins" á Alþingi.

Árni Gunnarsson, 2.4.2009 kl. 21:31

12 identicon

Sko, Ragnheiður mín.  Við höfum hist og talað saman á persónulegum vettvangi, en ekki verið kynnt sérstaklega,  og það skiptir ekki máli hér.

Þú ert í mínum huga VAXANDI stjórnmálamaður.  Og þú þarft ekki á því að halda að hnýta í aðra stjórnmálamenn, og það er bara dragbítur á þinn framgang.   Þú ert í SÓKN, ekki VÖRN.

Ég les bloggið þitt og bíð eftir því daglega, og mun gera fram að kosningum a.m.k.  Finnst vont þegar ekkert nýtt birtist.  Vegna þess að mér finnst þú hafa boðskap að færa.  

Ég er ekki sjálfur kjósandi í þínu kjördæmi, heldur Norðaustur. En nokkrir afkomendur minna eru í þínu kjördæmi.

Og ég vil sjá ykkur Arnbjörgu sem ráðherra í næstu ríkisstjórn.

Ég vil biðja þig, vegna þess að ég tel þig hafa einurð til þess, að gera þitt til þess að koma kjósendum í skilning um að það verði að koma í veg fyrirí endurtekningu þjóðarharmleiksins frá 1971, þegar öll stjórnmálaleg heiðarleikagildi hurfu af sjónarsviðinu um langa hríð.  Koma í veg fyrir að það gerist aftur.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki að biðja afsökunar á einu eða neinu.

Allra síst að leggjast niður eins og hundur með magann upp  og biðja aðra að klóra sér.

Til þess hefur hann ekki unnið.

Leyfi mér að óska viðbragða við hentugleika.

Bestu kveðjur.

Ólafur Vignir Sigurðsson

Ólafur Vignir Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 21:54

13 Smámynd: Héðinn Björnsson

Hvaða rugl er þetta með að stjórnarskráin verði að pólitísku plaggi. Stjórnarskráin
er rammpólitískt plagg enda ramminn um allt pólitískt starf á Íslandi. Að láta eins og grundvallarreglur samfélagsins geti verið á einhvern hátt óstjórnmálalegar er bara tóm steypa.

Er það bara mér sem finnst sjálfstæðisflokkurinn vera að fremja harakiri á þessu stjórnarskrársmáli? 

Héðinn Björnsson, 3.4.2009 kl. 11:20

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband