Gegnsæi og heiðarleiki
13.3.2009 | 11:55
Gegnsæi og heiðarleiki eru hugtök sem verða að ríkja í öllum samskiptum til þess að okkur auðnist að komast út úr þeim vanda sem við blasir. Skilanefndir bankanna taka nú yfir hvert fyrirtækið á fætur öðru og það er skýlaus krafa að þessi fyrirtæki verði síðan auglýst til sölu svo allir sitji við sama borð. Það má ekki gerast að umræðan fari í þann farveg að fáir útvaldir komist að kjötkötlum og fái allt fyrir ekki neitt. Íslenskt samfélag þolir hvorki slíkt vinnulag né umræðu. Það er frumskylda nú að koma bankakerfinu í gang til að greiða fyrir fjárfestingum og uppbyggingu atvinnulífsins. Ekki síst í ljósi aðgerða rauðgrænu ríkistjórnarinnar í atvinnuuppbyggingu sem kynntar hafa verið og eru byggðar á því að nýta fjármuni úr sjóðum og verkefnum ríkisins.Það kemur engum á óvart. Jákvæðar voru þó hugmyndir um frumkvöðlasetur, bætt skattaumhverfi nýsköpunar og að endurgreiðsluhlutfall vegna kvikmyndagerðar var hækkað. Það örlaði aðeins á að hvetja ætti einstaklinga til dáða og það má ekki lasta. Það er alveg ljóst að úrræði rauðgrænna verður að hækka skatta og auka útgjöld. Því verðum við sjálfstæðismenn að segja að við ætlum fyrst og fremst að ráðast í að lækka ríkistútgjöld og segja hvar og hvernig. Starfsmenn ríkisins hvar sem þeir starfa sem og notendur þeirra þjónustu sem ríkið veitir, allir eiga þeir rétt á að vita hvað er framundan. Þar dugar engin tæpitunga, við erum í vanda sem þarf að leysa. Við getum heldur ekki útlokað tímabundnar skattabreytingar en tækifæri liggja í því að fara yfir skattkerfið í heild sinni og kanna leiðir sem koma fyrirtækjum til góða og þeim sem minnst bera úr býtum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook