Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hagsmunatengsl þingflokks Vinstri grænna og BSRB?

Ragnheiður Ríkharðsdóttir skrifaði grein 13. september 2008 í tilefni af samþykkt laga um sjúkratryggingar: "Það hefði skorið á alla umræðu um óheppileg hagsmunatengsl þingflokks Vinstri grænna og BSRB."

FRUMVARP til laga um sjúkratryggingar sem heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram sl. vor varð að lögum á Alþingi miðvikudaginn 10. september og því fagna ég. Við þriðju umræðu lögðu tveir þingmenn Vinstri grænna í heilbrigðisnefnd þingsins, þær Þuríður Backman og Álfheiður Ingadóttir, fram nefndarálit og því fylgdu þrjú fylgiskjöl, erindi Göran Dahlberg frá Svíþjóð og Allyson M. Pollock frá Bretlandi sem og greinargerð Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors við HÍ. Þess ber að geta hér að fylgiskjölin öll voru ágætis lesning og þar var ýmsu hreyft sem vert er að skoða við innleiðingu nýrra laga. En það sem vakti mig sérstaklega til umhugsunar um fræðimennsku og vísindi eru viðhorf Allyson M. Pollack til skýrslu OECD er segir að óbreytt fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar og öldrun þjóðarinnar kalli í framtíðinni á aukin útgjöld heilbrigðisþjónustunnar. Viðhorf Allyson M. Pollock til skýrslu OECD kristallast í svörum hennar er hún segir m.a.:

*að skýrsla OECD sé ekki sérlega rökrétt og vel unnin

*að þetta með aldurssamsetningu samfélagsins og aukin útgjöld séu hrein og klár rökleysa að vera þurfi á varðbergi gagnvart því sem segir í skýrslu OECD

*að skoða þurfi hverjar heimildir eru og heimildarmenn að gögnin í skýrslu OECD séu hlægileg.

Satt best að segja er afar erfitt að flokka slík viðhorf undir fræðimennsku og vísindi og ber að líta á sem persónulegar skoðanir sérfræðingsins sem hafa allt annað vægi en fræðilegar rökstuddar fullyrðingar.

Það sem vekur enn fremur athygli er að BSRB kostaði komu þessara tveggja sérfræðinga hingað til lands sem og bæklingana tvo með erindunum þýddum yfir á íslensku og þar með fylgiskjöl þingmanna Vinstri grænna. Það er vissulega virðingarvert af hálfu BSRB að gefa félagsmönnum sínum tækifæri til að hlýða á og ræða við sérfræðinga og taka síðan afstöðu til frumvarpa er liggja fyrir Alþingi. En hefði þá ekki verið rétt að kalla til sérfræðinga með ólíka sýn til þess að gefa félagsmönnum BSRB enn betra tækifæri til að taka afstöðu til ólíkra sjónarmiða „óháðra" sérfræðinga og taka síðan afstöðu til frumvarpa er liggja fyrir Alþingi? Formaður BSRB Ögmundur Jónasson, sem jafnframt er formaður þingflokks Vinstri grænna, hefur nefnt í tengslum við komu þessara tveggja sérfræðinga BSRB og erinda þeirra að Verslunarráð/Viðskiptaráð hafi flutt inn og kostað fyrirlesara til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. En á þessu tvennu er reginmunur því BSRB eru opinber félagasamtök og í þau greiða opinberir starfsmenn sín félagsgjöld sem þeim ber samkvæmt lögum og geta ekki annað en félagsmenn Viðskiptaráðs eru þar að eigin ósk og geta farið úr þeim samtökum þegar þeim hentar. Þetta veit formaður BSRB og formaður þingflokks Vinstri grænna Ögmundur Jónasson mætavel en kýs að líta framhjá. Það hefði að mínu mati verið heppilegra fyrir þingflokk Vinstri grænna að kosta sjálfur komu þessara tveggja sérfræðinga og þýðingu erinda þeirra til þess að nýta sér síðan í pólitískri umræðu á Alþingi máli sínu til stuðnings. Það hefði skorið á alla umræðu um óheppileg hagsmunatengsl þingflokks Vinstri grænna og BSRB.

Höfundur er alþingismaður.

Grein birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 13. september, 2008


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband