Við höfum viljann og kraftinn

Hagur heimilanna byggir á atvinnu og öryggi, hvorki skuldavandanum né hinum félagslega vanda verður eytt nema fólk hafi vinnu, hafi tekjur til að greiða niður lánin og ráðstöfunartekjur til að leyfa sér og börnum sínum að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Við verðum að auka verðmætasköpun í landinu og gefa fólkinu von um betri framtíð. Við þurfum öflugt atvinnulíf nú þegar.  Í dag er stór hluti viðskiptalífsins í eigu hins opinbera  og á meðan svo er alveg ljóst að kreppan heldur áfram að dýpka. Því fyrr sem fyrirtækin komast úr eigu ríkisins og úr krampatökum bankanna og nýir eigendur eða hinir gömlu fá tækifæri til að vera í friði  fyrir afskiptasemi hins opinbera og banka því fyrr mun efnahagslífið taka við sér.  Við þurfum að eyða þeirri óvissu í atvinnulífinu sem nú ríkir og ryðja úr vegi hindrunum á ýmsum sviðum.  Það er kristaltært að aukin atvinna eykur tekjur, dregur úr útgjöldum ríkissjóðs m.a. vegna atvinnuleysisbóta og skilar þjóðinni efnahags- og félagslegum hagvexti. Þetta er einfalt við þurfum fleiri atvinnutækifæri fyrir fólkið í landinu, fólkið sem hefur viljann, getuna og kraftinn.

Það gengur ekki að ræða skuldavanda heimilanna og samhliða að auka álögur á fólkið í landinu. Í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er verið að ræða álögur á fólkið í landinu sem nemur 13,5 milljörðum. Þar ber fyrst að nefna frystingu persónuafsláttar auk skattahækkana á síðasta ári, auknar álögur á áfengi og tóbak sem og bifreiðar, álögur sem hækka höfuðstól lána og auka þar með á skuldavanda heimilanna. Sömuleiðis er á döfinni skerðing vaxta- og barnabóta að upphæð 3, 3 milljarða. Nú er svo komið að millitekjufólkið sem hingað til hefur getað staðið undir skattahækkunum og greiðslu lána er líka að missa móðinn og þá er fokið í flest skjól. Við verðum að snúa af þessari braut, það sjá að ég held flestir. Lækkum skatta, drögum úr álögum á fólkið í landinu, aukum þannig ráðstöfunartekjur þess, gefum fólkinu í landinu von og tækifæri til að vinna sig út úr vandanum.  Hagnaðurinn verður bæði fyrir fólkið í landinu og ekki síður fyrir ríkissjóð.

Það varð forsendubrestur í hagkerfinu og þeim forsendubresti verða lánveitendur og lánþegar að skipta á milli sín með einhverjum hætti. Það samtal verður að eiga sér stað því sanngirni er ekki fólgin í því að fólkið og fyrirtækinu í landinu beri þann forsendubrest eitt. Hvort heldur rætt er um lengingu lána, lækkun greiðslubyrði, lækkun höfuðstóls, afskriftir skulda eða hvaðeina annað þá verður að ljúka þessu samtali fyrr en seinna. Byggjum upp traust að nýju á fjármálastofnunum, þær þurfa þess og við einnig til þess að unnt sé að horfa til framtíðar í uppbyggingu samfélagsins. Við þurfum öflugt atvinnulíf, lægri skatta, gefum von um betri framtíð því viljann til að vinna hefur þjóðin.


« Síðasta færsla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband